
Lagabreyting styttir umsagnartíma friðlýsingaráforma
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti fyrir frumvarpinu í nóvember síðastliðnum. Með lagabreytingunni á kynningar- og umsagnartími áforma um friðlýsingu og friðlýsingarskilmála að styttast og friðlýsingarferlið verða skilvirkara.
Þegar liggja fyrir drög að greiningu víðerna á hálendinu og nú þykir rétt að kortleggja einnig víðerni og óbyggð annars staðar á landinu. Slíkt yfirlit er talið auðvelda alla vinnu við ýmsar stjórnskipulegar ákvarðanir sveitarstjórna.
Undanþáguheimild frá ákvæðum friðlýsinga verður einnig færð frá ráðherra til Umhverfisstofnunar ásamt heimild til að veita undanþágu við banni við akstri utan vega.
Þannig verði tryggt að unnt verði að endurskoða slíka ákvörðun á stjórnsýslustigi líkt og gert er ráð fyrir í Árósasamningnum sem gekk í gildi 2001.
Í samningnum segir meðal annars að réttur sérhvers manns sé að lifa í heilbrigðu umhverfi og um leið beri honum skylda til að vernda umhverfið.