Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

424 flóttamönnum bjargað undan ströndum Ítalíu

07.02.2021 - 17:20
Mynd: SOS Méditerranée / SOS Méditerranée
424 flóttamönnum var bjargað af yfirfullum bátum úti fyrir Sikiley á Ítalíu um helgina. Áhöfn skipsins Ocean Viking, frá mannúðarsamtökunum SOS Mediterranee, fékk leyfi frá ítölskum yfirvöldum til að koma fólkinu í land í kvöld.

Átta þeirra sem bjargað var greindust með COVID-19 og var þeim haldið aðskildum frá öðrum um borð í björgunarskipinu. Fólkið var á leið frá Líbíu og féllu nokkrir í sjóinn en talið er að tekist hafi að bjarga öllum. 

Í hópnum var einnig barnshafandi kona sem þurfti tafarlaust að komast undir læknishendur. Hún var flutt með þyrlu til Möltu.