Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Össur var færður forviða forseta þings eftir mótmæli

Mynd: - / RÚV

Össur var færður forviða forseta þings eftir mótmæli

06.02.2021 - 11:00

Höfundar

Árið 1976 mótmæltu stúdentar nýrri tilhögun og reglum um námslán með því að safnast saman á þingpöllum. Meðal þeirra var Össur Skarphéðinsson, sem síðar varð alþingismaður og ráðherra. „Það var bylting í loftinu og allir voru róttækir.“

Stúdentaráð Háskóla Íslands lét sig frá upphafi samfélagsleg mál varða og það þótti lengst af sjálfsagt að það tæki þátt í lands- og heimspólitískum málum. Átakalínur voru skýrar innan stúdentahreyfingarinnar en eftir því sem árin liðu kom í ljós að hluta af stúdentum þótti of mikið um slíkt. Í lok sjötta áratugarins og þeim sjöunda var reynt að halda pólitíkinni utan Stúdentaráðs en á þeim áttunda og níunda tók byltingarandinn aftur völdin.

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, rifjar upp þegar hann tók þátt í stúdentamótmælum árið 1976 í nýjum þáttum um 100 ára sögu Stúdentaráðs. Þá var Össur formaður ráðsins og lét til sín taka í kjarabaráttu stúdenta. 

„Manni fannst breytingar í vændum en auðvitað vorum við hér á Íslandi með síðustu bylgjunum sem skoluðust upp á strendur Evrópu eftir stúdentauppreisnirnar 1968,“ segir Össur. Það var mikil róttækni í loftinu og stúdentar vildu sjá beinar aðgerðir. 

1976: Stúdentar mótmæla. Þann 15. nóvember mótmæltu stúdentar nýrri tilhögun og reglum um námslán með því að safnast saman í menntamálaráðuneytinu. Meðal þeirra var Össur Skarphéðinsson, sem síðar varð alþingismaður og ráðherra.
Össur, fremstur á mynd, við mótmælin 1976.

„Þá fórum við á þingið þar sem verið var að ræða námslánin og stúdentar fylltu þingpallana þannig að það var ekki hægt að drepa fingri þar inn. Við tókum þá stærstu og sterkustu og settum þá við dyrnar og ég var innstur á pöllunum þannig að það var erfitt að ná til mín. Svo hóf ég upp mína raust og hélt ræðu yfir þingheiminum.“

Ragnhildur Helgadóttir var þá þingforseti og man Össur vel eftir því þegar hún lamdi með miklum hvelli í bjölluna til að slíta fundi. Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, var í hópnum. „Þá gall í honum yfir þingsalinn: Við hlustum ekki á kristalskúlu gamallar völvu kapítalismans,“ segir Össur.

En þar með var uppákomunni ekki lokið. Lögreglumenn óðu að Össuri og handsömuðu hann – en fóru ekki með hann rakleiðis í steininn. „Heldur fór með mig eins og hún ætlaði að afhenda mig forseta þingsins. Ragnhildur Helgadóttir horfði auðvitað í forundran á mig og sagði: Hvað á ég að gera við þennan mann! Takið hann burt!“

Í þáttunum Baráttan – 100 ára saga Stúdentaráðs er farið yfir merka áfanga í báráttu og hlutverki Stúdentaráðs. Í þeim er rætt við stjórnmálafólk og aðra þjóðþekkta einstaklinga sem stigu sín fyrstu skref í Stúdentaráði. Fjallað er um stúdenta í framlínunni í menningu og listum og sagt frá skemmtilegum uppákomum sem hafa átt sér stað í gegnum tímann.