Stúdentaráð Háskóla Íslands lét sig frá upphafi samfélagsleg mál varða og það þótti lengst af sjálfsagt að það tæki þátt í lands- og heimspólitískum málum. Átakalínur voru skýrar innan stúdentahreyfingarinnar en eftir því sem árin liðu kom í ljós að hluta af stúdentum þótti of mikið um slíkt. Í lok sjötta áratugarins og þeim sjöunda var reynt að halda pólitíkinni utan Stúdentaráðs en á þeim áttunda og níunda tók byltingarandinn aftur völdin.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, rifjar upp þegar hann tók þátt í stúdentamótmælum árið 1976 í nýjum þáttum um 100 ára sögu Stúdentaráðs. Þá var Össur formaður ráðsins og lét til sín taka í kjarabaráttu stúdenta.
„Manni fannst breytingar í vændum en auðvitað vorum við hér á Íslandi með síðustu bylgjunum sem skoluðust upp á strendur Evrópu eftir stúdentauppreisnirnar 1968,“ segir Össur. Það var mikil róttækni í loftinu og stúdentar vildu sjá beinar aðgerðir.