Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikið að gera í borgaraþjónustu þrátt fyrir fá ferðalög

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Það sem af er ári hefur borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins aðstoðað um 400 manns við landamæri annarra ríkja. Flest málin lúta að sóttvarnakröfum í þeim löndum ferðast er til.

Þeir sem eru stöðvaðir við landamæri eða lenda í vandræðum af einhverjum ástæðum á ferðalögum sínum geta snúið sér til borgaraþjónustustu utanríkisráðuneytisins. Þegar faraldurinn hófst voru margir á faraldsfæti og mikið álag á þjónustunni á meðan fólk reyndi að komast til síns heima. Þá fengu um 12.000 manns aðstoð. Nú tæpu ári síðar heyra ferðalög fólks á milli landa til undantekninga, enda öll lönd skilgreind sem áhættusvæði. Þrátt fyrir það hafa það sem af er ári um 400 Íslendingar leitað til borgaraþjónustunnar vegna vandræða við landamæri annarra ríkja. 

„Mjög stór hluti þessara u.þ.b. 400 mála sem komu inn á borð borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins eru vegna kórónuveirufaraldursins,“

Og leysast öll þessi mál?

„Við reynum að leysa velflest mál með einhverjum hætti, en það er ekki hægt að ábyrgjast að öll mál séu þess eðlis að það sé hægt að leysa þau fljótt og vel. Almenna reglan er þó sú að ríkisborgarar eiga að komast til sinna heimalanda,“ segir Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Vandamálin eru af ýmsum toga, en fyrst og fremst er það vegna strangra sóttvarnareglna. Sveinn segir að þó að staða faraldursins sé góð hér á landi þýði það ekki að allar leiðir séu 
færar til ferðalaga, til að mynda teljast þeir sem millilenda á leið sinni ekki vera að koma frá Íslandi, heldur frá því landi sem þeir millilenda í, og lúti þar af leiðandi gildandi reglum í því landi. 

„Almennt hvetjum við fólk til að fylgjast vel með þeim ferðatakmörkunum sem eru í gildi í heiminum, og á  vefsíðu utanríkisráðuneytisins höfum við birt ferðaráð sem eru uppfærð nánast í rauntíma þar sem fólk getur fengið á aðgengilegan hátt upplýsingar um hvaða takmarkanir gilda í velflestum ríkjum sem íslendingar ferðast til. Það er líka rétt að hafa í huga að þó að Ísland sé núna grænmerkt hjá evrópsku sóttvarnastofnunni og staða faraldursins hér á landi sé góð þá er ekki þar með sagt að íslendingar geti ferðast auðveldlega til allra landa,“ segir Sveinn.

Ferðaráð má sjá hér.