Læsti sig inni á baðherbergi baksviðs með kippu af bjór

Mynd: RÚV / RÚV

Læsti sig inni á baðherbergi baksviðs með kippu af bjór

06.02.2021 - 14:02

Höfundar

„Ég var við það að fara að grenja því mig langaði svo að þetta gengi vel loksins,“ rifjar Mugison upp um erfiða útgáfutónleika sem haldnir voru fyrir útgáfu annarrar breiðskífu hans. Fæstir voru mættir til að hlusta á tónlistina heldur til að drekka og spjalla saman og sú reynsla var honum svo þungbær að hann ætlaði að hætta í tónlist.

Tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson eða Mugison eins og hann kallar sig sló ekki í gegn á einni nóttu eins og hann vonaði sjálfur. Fyrstu mánuðir ferilsins voru erfiðir og þegar hann lítur til baka segist hann átta sig á því að hann hafi einfaldlega ekki verið nógu góður til að byrja með.

Vinsældirnar og fagnaðarlætin sem hann óskaði sér létu á sér standa og hann fór að verða svo þreyttur á biðinni að hann langaði að gefast upp og snúa baki við gítarnum. Friðrik Þór Friðriksson fékk hann þó, í kjölfarið á fyrstu plötunni, Lonely mountain, til að gera tónlistina fyrir kvikmynd hans Niceland. Hann ákvað í framhaldi af því að gefa út aðra plötu sína, Mugimama, is this monkey music? og sá fyrir sér að nú myndi fólk kveikja á perunni. Sú plata varð eins og flestir vita gríðarlega vinsæl en það tók aðeins tíma að koma henni á kortið. Mugison er gestur Matthíasar Más Magnússonar í lokaþætti Tónatals í kvöld. Þar segir hann frá ferlinum, helstu áhrifavöldum og leikur bæði eigin lög og ábreiður.

„Var við það að fara að grenja“

Hann rifjar það upp þegar hann hélt útgáfutónleika fyrir Mugimama plötuna í Institute of Contemporary Arts, eða ICA, í London. Þangað var fína fólkinu í bransanum boðið og Mugison spenntist upp, vongóður um að trylla loksins lýðinn almennilega. Hann áttaði sig hinsvegar fljótt á því, þegar hann var mættur á svæðið með gítarinn, að fína fræga fólkið var aðalega mætt þangað af virðingu við útgefendur hans í London og til að fá frítt að drekka. „Svo er ég kynntur á svið og það er öllum skítsama og bara komnir í glas,“ rifjar hann upp.

Mugison steig samt á svið og spilaði fjögur lög fyrir áhorfendurna sem létu sér fátt um finnast, héldu áfram að fá sér vín og skrafa saman. Vonbrigðin voru gífurleg. „Ég var við það að fara að grenja því mig langaði svo að þetta gengi vel loksins,“ segir hann. „Ég sagði öllum að fokka sér eða eitthvað, algjör dramadrottning.“

Ákvað að hætta í tónlist

Mugison yfirgaf sviðið fullur af biturð og skömm og ,„hljóp baksviðs, læsti mig inni á klósetti og drakk mig bara fullan,“ segir hann. Útgáfufyrirtækið bað hann vinsamlega að taka sér tak og koma út af salerninu. „Allir voru bara: Drullaðu þér fram, það er búið að leggja svo mikinn pening í þetta, borga brennivín í fólkið og þú verður að sýna okkur virðingu,“ segir hann. „Ég gerði það ekki.“

Daginn eftir vaknaði hann fullur eftirsjár yfir hegðun sinni en þess fullviss að þetta hefði verið síðasta hálmstráið. Konan hans var nýorðin ófrísk og nýir tímar að ganga í hönd í lífi tónlistarmannsins svo hann komst að þeirri niðurstöðu að nú væri rétti tímapunkturinn til að átta sig á að þeta væri ekki að ganga, hætta og gefa vonina um glæstan feril í tónlist upp á bátinn. Hann var þó enn bókaður á eina tónleika, á tónlistarhátíðinni Sónar á Spáni, og ákvað með sjálfum sér að mæta en það yrðu lokatónleikarnir hans.

Gaf allt í það sem átti að vera síðustu tónleikarnir

Eiginkona hans, Rúna Esradóttir, kom með honum til Spánar og þau fóru saman á tónleikastaðinn þar sem Mugison ætlaði að spila sína síðustu tónleika klukkan fimm. Og þegar kom að því að leika lögin af nýútkominni plötunni var ekkert sparað. „Ég ákvað að gefa allt í þetta því mér var skítsama, þetta var hvort sem er bara síðustu tónleikarnir mínir og þetta skipti engu máli.“

En fljótlega eftir að Mugison byrjaði að spila fylltist tónleikastaðurinn sem honum fannst til merkis um að hann væri loksins að slá í gegn. Hann las reyndar um það í blöðum tveimur dögum síðar að hellirigning hafi brostið á um það leyti sem hann steig á stokk svo að í dag telur hann líklegt að einhverjir gestir hafi hópast inn til að leita skjóls frá henni, „en ég vissi það ekki þá svo ég var bara: Loksins! Og gaf allt í það.“

Makaði sig óvart af blóði í framan

Í einu laginu fór hann að öskra af innlifun og lemja svo harkalega á strengina að hann skar sig í þumalinn án þess að taka eftir því. „Ég lamdi gítarinn eins og ég væri í Sigur Rós eða einhverju,“ segir Mugison sem þurrkaði svo svitann af enninu með blóðugum fingri og tókst þannig í æsingnum að maka sig allan í blóði í framan. Hann sá hvernig fremsta röðin starði á hann bergnuminn og taldi að fólk væri svo dolfallið yfir tónlistinni. Sem eflaust margir voru en leiða má líkum að því að einhverjir hafi líka verið svo hissa á svip yfir blóðbaðinu.

Mugison fékk mikið kikk út úr tónleikunum og síðan hefur ekki verið aftur snúið. „Þegar maður fær svona viðbrögð frá fólki sem horfir og heyrir og er með manni alla leið þá er þetta eins og fíkniefni. Ég bara verð að fá þetta dæmi aftur og aftur og ég er fastur í þessari fíkn.“

Mugison þurfti ekki að örvænta lengi því platan sló í gegn. Það má nefna að hún vann til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2004 sem poppplata ársins og var lagið Murr Murr valið besta lag ásamt því að Mugison var tilnefndur sem besti söngvari og besti flytjandi ársins. Hann segir frá ævintýrinu í þætti kvöldsins.

Lokaþáttur Tónatals er á dagskrá í kvöld kl. 20.50.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Stundum var bara allur dagurinn ónýtur“

Tónlist

Svona byrjaði fyrsti rappararígur Íslands

Tónlist

Sonurinn fattar ekki að pabbi syngur Hvolpasveitarlagið

Tónlist

„Skuldir, þunglyndi, alkóhólismi – Danmörk“