Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kalla eftir afstöðu ráðherra til reksturs spilakassa

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök áhugafólks um spilafíkn segja niðurstöður könnunar sem Gallup gerði fyrir þau í apríl og maí 2020 sýni að mjög afmarkaður og lítill hópur leggi allt sitt í spilakassa HHÍ. Samtökin kalla eftir afstöðu menntamálaráðherra til áframhaldandi reksturs kassanna.

Könnunin sýnir að meirihluti almennings er neikvæður gagnvart því að fjármagna starfsemi í almannaþágu með spilakössum, eða 71,3%. Um níu af hundraði kvaðst hafa mjög eða frekar jákvæða afstöðu til þess en 19,7% sögðu hvorki né. Spilakössum var lokað 20. mars en opnaðir aftur í maí-byrjun.

Tæplega 86% aðspurðra vilja að spilakassar loki til frambúðar eftir að kórónuveirufaraldurinn gengur yfir og 93,6% sögðust aldrei hafa notað spilakassa undanfarna tólf mánuði.

Það voru 0,3% sem sögðust hafa notað spilakassa 11 til 50 sinnum árið áður en könnunin var gerð. Alma Hafsteinsdóttir formaður samtakanna telur niðurstöðurnar trúverðugar vegna þess að þær voru gerðar gegnum netið en ekki símleiðis.

Samtökin kalla eftir afstöðu menntamálaráðherra til reksturs spilakassa til fjáröflunar fyrir Háskóla Íslands, í opnu bréfi dagsettu 26. janúar. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fengu samrit af bréfinu.

Að sögn Ölmu Hafsteinsdóttur hafa ráðherrarnir ekki brugðist við enn. Óskað er eftir því að málið verði rætt í ríkisstjórn og að svar ráðherra verði birt opinberlega.

Í bréfinu biðja samtökin um viðbrögð frá menntamálaráðherra vegna þess viðhorfs Bryndísar Hrafnkelsdóttur forstjóra Happdrættis Háskólans og Áslaugar Örnu að ábyrgð varðandi framtíð reksturs spilakassanna liggi hjá ráðherra.

Vitnað er í orð Bryndísar í fréttaskýringaþættinum Kompási þar sem hún sagði það lögbundið hlutverk happdrættisins að standa að rekstri spilakassa til að fjármagna byggingar Háskóla Íslands. Hún sagði þar að 24 byggingar skólans hafa verið reistar fyrir happdrættisfé.

Alma segir spilakassa verða opnaða að nýju á mánudag og álítur að eitt af stóru málum komandi mánaða verði þegar upp rennur fyrir fólki hvaða áhrif það hefur haft á fjölda einstaklinga að eyða miklum fjármunum í spilakössum líknar- og menntastofnana.