Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vara við bikblæðingum í Svínadal og Reykhólasveit

05.02.2021 - 09:50
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Vegagerðin varar við malbiksblæðingum bæði í vestanverðum Svínadal og í Reykhólasveit. Milljónatjón varð um miðjan desember þegar tjara lak úr malbikinu og festist á bílum. Þá var blæðingin mest milli Borgarfjarðar og Húnavatnssýslu.

Vegagerðin hefur átt í erfiðleikum með bikblæðingar undanfarin ár, en þeirra verður oftast vart ef veðurfar er rysjótt og miklar hitasveiflur. Þegar veghiti hækkar mikið lekur tjara úr klæðningunni, festist á bílum og getur valdið töluverðu tjóni. Vegagerðin hefur reynt ýmislegt til að bregðast við en eftir að blæðinga verður vart er lítið hægt að gera nema hreinsa vegina og það bik sem hefur losnað. Klæðning er á flestum vegum á landinu en eina lausnin á þessu vandamáli, að mati Vegagerðarinnar, er að malbika í stað þess að leggja klæðningu. Það er þrisvar til fimm sinnum dýrara en klæðningin en vegir eru aðeins malbikaðir frá höfuðborgarsvæðinu norður í Borgarnes og austur að Þjórsá.