Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tilbúinn að keppa við Viaplay um enska boltann

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Tilbúinn að keppa við Viaplay um enska boltann

05.02.2021 - 16:14
Sjónvarpsstjóri Sjónvarps Símans segir að Viaplay ætli að gera sig gildandi á íslenskum sjónvarpsmarkaði og viðbúið sé að það reyni að fá sýningarréttinn á enska boltanum sem Síminn er með. Þeirri samkeppni verði mætt.

Viaplay, sem er í eigu NENT Group, stærstu streymisveitu Norðurlanda, hefur tryggt sér einkarétt á sýningum á leikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta frá 2022 til 2028.

Samsteypan sýnir meira en 50 þúsund klukkustundir af íþróttaviðburðum árlega og er til að mynda með réttinn á leikjum ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta alls staðar á Norðurlöndunum nema á Íslandi, en Sjónvarp Símans er með réttinn hér. Roberta Alenius yfirmaður samskipta hjá NENT Group vildi í samtali við fréttastofuna í gær ekki tjá sig um hvort til stæði að sækjast eftir sýningarrétti á leikjum kvennalandsliðsins eða ensku úrvalsdeildarinnar.  Magnús Ragnarsson sjónvarpsstjóri Sjónvarps Símans gerir ráð fyrir að Viaplay reyni að ná réttinum á enska boltanum hér.

„Við sjáum bara að Viaplay hefur áhuga á öllum íþróttum sem eru boðnar út fyrir Ísland þannig að við reiknum með að þeir komi og reyni að bjóða í enska boltann á móti okkur núna þegar hann verður boðinn út í vor, þannig að já, já þeir ætla að gera sig gildandi hér.“
Ætlið þið að reyna að mæta þeim, þetta er stórt fyrirtæki?
„Já, já þetta er stórt fyrirtæki en við höfum nú aðeins forskot í því að við þekkjum okkar markað, en að sjálfsögðu munum við mæta þeim.“   

Magnús segir að í vor, apríl eða maí, verði enski boltinn boðinn út, en þá er ár eftir af samningi Sjónvarps Símans. Hann telur ekki að fyrst Viaplay sé með enska boltann annars staðar á Norðurlöndunum sé fyrirtækið í sterkari stöðu gagnvart viðsemjendunum.

„Nei, ég held nú ekki. Öll löndin eru boðin út hvert fyrir sig, þetta er ekki heildarmarkaður sem er boðinn út þannig. Auðvitað eru þeir stór viðskiptavinur Premier League eða ensku úrvalsdeildarinnar, en það er nú samt sem áður að það er bara ein tala á blaðinu sem skiptir máli þegar tilboðin eru opnuð.“ 
 

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Allir landsleikir Íslands verða sýndir á Viaplay