Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sýknaður eftir hnífstungu í sjálfsvörn í húsbíl

05.02.2021 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Karlmaður hefur verið sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness af ákæru vegna sérstaklega hættulegrar líkamsárásar. Karlmaðurinn, sem er frá Þýskalandi, stakk mann í handlegginn, en sá hafði brotið rúðu í húsbíl þar sem Þjóðverjinn og unnusta hans sváfu. Maðurinn, sem braut rúðina, var að fálma eftir einhverju inni í húsbílnum þegar hann var stunginn.

Húsbílnum var lagt við gatnamót Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar að kvöldi til 24. febrúar í fyrra. Þjóðverjinn og unnusta hans fengu sér að borða um klukkan 22:30 í bílnum og notuðu meðal annars vasahníf við matseldina. Um klukkan 23:00 tóku þau eftir karlmanni á vappi við bílinn og að reyna að sjá inn í hann. Hann virtist í annarlegu ástandi og sagði þeim að snjóruðningstæki hafi verið ekið á bílinn hans. Hann spurði þau hvort þau hefðu nokkuð séð slík farartæki þar á ferð. Það höfðu þau ekki séð og við það ók maðurinn í burt.

Fólkið í húsbílnum óttaðist um líf sitt

Parið fór að sofa í húsbílnum en vaknaði um klukkan þrjú um nóttina við hátt hljóð í málmhlut. Stuttu síðar splundraðist rúða í bílnum og maðurinn, sem var á vappi við bílinn, stakk hönd sinni inn í hann. Fólkið kvaðst hafa óttast um líf sitt enda hafi þau ekki getað komist út úr bílnum, nema í honum framanverðum, þar sem hinn meinti innbrotsþjófur var. Þau öskruðu á hann að fara en þegar hann gerði það ekki greip karlmaðurinn það næsta sem hann sá, vasahníf í vaskinum, og stakk manninn í höndina. Hann hlaut sjö sentimetra langan skurð á hægri upphandlegg og taugaskaða. 

Fjórir ferðamenn í húsbílum á svæðinu vöknuðu við lætin. Eftir að Þjóðverjinn lagði til mannsins, ók maðurinn strax í burt á bíl sínum í átt til Reykjanesbæjar. Við skýrslutökur sagði hann að hann hefði komið aftur að húsbílnum um nóttina því hann hafi séð hreyfingu í bílnum og vildi spyrja parið á ný hvort þau hafi séð snjóruðningstæki á ferli. Hann kvaðst hafa bankað á gluggann með vasaljósi, en hann hafi svo hrasað í hálku og brotið óvart hliðarrúðu í bílnum. Við það hafi handleggur hans farið inn í húsbílinn. 

Í bíl mannsins, né nokkurs staðar á vettvangi, fannst ekki vasaljós en í bílnum fannst aftur á móti opinn Leatherman hnífur. Í dómnum segir að allar líkur séu á að maðurinn hafi brotið rúðuna með hnífnum. Niðurstaðan varð sú að Þjóðverjinn var sýknaður af ákæru um sérstaklega hættulega líkamsárás og bótakröfu var vísað frá.

Afsakanlegt að hafa ekki gætt sín við vörnina

Í dómnum segir að hann telji það ekki óeðlileg viðbrögð að maðurinn í húsbílnum hafi gripið til þess næsta sem hann hafi fundið, sjálfum sér og kærustu sinni til varnar. Hann hafi ekki gætt varkárni við beitingu hættulegs varnartækis, sem hnífur sé, þó ætlun hans hafi ekki verið önnur en að stöðva ólögmæta atlögu að húsbílnum og stökkva manninum á brott. Það hafi farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar en að á hinn bóginn sé virt að fólkið í húsbílnum hafi verið skelfingu lostið vegna ólögmætrar árásar á húsbílinn um miðja nótt sem hafði allt eins getað verið af völdum vopnaðra manna. Því þyki afsakanlegt að hann hafi ekki gætt sín sem skyldi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir