Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sjónvarpsstjóri Símans varar við frumvarpi Lilju

05.02.2021 - 08:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Magnús Ragnarsson, sjónvarpsstjóri Símans, vill leggja fjölmiðlafrumvarp Lilja Alfreðsdóttur til hliðar. Hann telur að ríkið ætti miklu frekar að leggja áherslu á að „beina ríkisstuðningi í þá veru að styrkja fjölmiðla sem sinna þýðingum á efni.“ Innlendar sjónvarpsstöðvar séu í mun verri stöðu en erlendar streymisveitur sem hafi ekki þá skyldu að sinna þýðingarskyldunni.

Þetta kemur fram í umsögn Magnúsar við fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra. 

Hann segir augljóst að tilgangur frumvarpsins sé að bæta einkafyrirtækjum það tjón sem skapist vegna tilveru RÚV á auglýsingamarkaði. „Eina leiðin til þess að lagfæra þá stöðu er að ríkisfyrirtækið hætti starfsemi á einkamarkaði,“ skrifar Magnús.

Verði frumvarpið samþykkt þurfi fyrirtæki eins og Síminn að keppa við einkarekna miðla sem njóta ríkisstuðnings og Ríkisútvarpið en einnig erlendar fyrirtækjasamsteypur eins og Facebook, Google eða Viaplay.

Magnús telur að frumvarpið breyti engu um stöðu RÚV, það haldi stöðu sinni en Sýn, sem rekur Stöð 2 og rekur læsta fréttastofu, hefði enn meira fjármagn til þess að keppa við aðila á markaði fyrir áskriftarsjónvarp. 

Fram kemur í umsögn Sýnar við frumvarpið að fjölmiðlafrumvarpið myndi eitt og sér ekki duga til að snúa við þeirri ákvörðun að senda fréttir Stöðvar 2 eingöngu fyrir áskrifendur.

Magnús telur að Alþingi ætti frekar að beina sjónum sínum að þeim fjölmiðlum sem sinna þýðingum á erlendu efni.  Innlend fjölmiðlafyrirtæki hafi þýðingarskyldu en ekki erlendar streymisveitur eins og Disney+.  „Síminn sem dæmi er að keppa við umrætt fyrirtæki og býður upp á barnaefni sem Síminn þýðir og talsetur.“

Ef innlend fjölmiðlafyrirtæki fái ekki stuðning til að sinna þýðingum og talsetningum sé versta sviðsmyndin sú að allar myndefnisveitur verði erlendar þar sem enginn sinni talsetningu með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslenska tungu. Menntamálaráðherra hefur skrifað forstjóra Disney bréf þar sem hún skorar á fyrirtækið að talsetja og texta efni sitt.

Magnús veltir því síðan upp hvort Síminn eigi rétt á styrk vegna kostnaðar við miðlun frétta og fréttatengds efnis.  „Einn miðla Símans er Síminn Sport en þar er fjallað linnulaust um málefni sem hefur mikla samfélagslega skírskotun, nefnilega fótbolta.“  300 leikir séu sýndir í beinni útsendingu, stöðugar fréttir fluttar af íþróttinni og fjöldi manns starfi við ritstjórn, dagskrárgerð og framleiðslu. 

Sjónvarp Símans reki ekki fréttastofu en framleiði efni sem brenni á samfélaginu. „Hér má nefna þætti á borð við Vináttu, í beinni með Loga, Líf kviknar, Ný sýn og Það er komin Helgi.“  

Magnús telur frumvarpið flækja samkeppnismarkað að óþörfu og geti jafnvel valdið enn meiri skekkju. „Fjölmiðlamarkaður verður ekki eðlilegur fyrr en löggjafinn kemur böndum á fílinn í herberginu, Ríkisútvarpið“