Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslendingar réðust á strætisvagnstjóra í dönskum smábæ

05.02.2021 - 09:12
Mynd með færslu
 Mynd: politi.dk
Þrír íslenskir karlmenn, tveir á þrítugsaldri og einn um sextugt, eru í haldi lögreglunnar á Suður-Jótlandi grunaðir um búðarþjófnað og fólskulega árás á strætisvagnstjóra í smábænum Tønder. Mennirnir veittust að bílstjóranum þegar hann bað þá um að setja upp grímu og borga fyrir farið. Hann þurfti að leita á sjúkrahús eftir árásina en er ekki talinn í lífshættu.

Fram kemur á fréttavef Jydske Vestkysten að leit að mönnunum hafi fyrst hafist eftir að tilkynnt var um þjófnað úr búðinni Dagli'Brugsen skömmu eftir hádegi. 

Þar tók starfsmaður eftir því að einn af Íslendingunum væri að stela áfengi með því að fela það innanklæða.  Þegar kom að því að borga ætlaði Íslendingurinn eingöngu að greiða fyrir eina flösku en ekki þá sem hann hafði stungið inn á sig. Hann hafði síðan í hótunum við afgreiðslumanninn, kallaði hann öllum illum nöfnum og lét sig hverfa.

Skömmu seinna sást til mannsins ásamt hinum tveimur Íslendingunum með innkaupakörfu úr búðinni. Þegar lögregla hóf leit að þremenningunum barst tilkynning um að ráðist hefði verið á strætisvagnstjóra.  „Hann hafði beðið þá um að vera með grímu og að þeir þyrftu að borga fyrir farið,“ hefur Jydske Vestkysten eftir lögreglunni. 

Mennirnir létu högg og spörk dynja á bílstjóranum sem þurfti að leita á sjúkrahús eftir árásina.  Hann er þó ekki í lífshættu.  Mennirnir fundust loks eftir nokkuð umfangsmikla leit og reyndust þá vera með eitthvað af þýfi. Þeir eru ekki með fasta búsetu í Danmörku, samkvæmt dönskum miðlum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV