Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hús Íslandsbanka varla rifið fyrr en síðsumars

Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Stórbyggingin sem áður hýsti höfuðstöðvar Íslandsbanka á Kirkjusandi verður að öllum líkindum ekki rifin fyrr en í lok sumars. Mikil uppbygging hefur verið allt umhverfis húsið en skipulagning svæðisins stendur enn yfir.

Húsið, sem upphaflega hýsti hraðfrystistöð Júpiter og Mars, hefur staðið autt frá árinu 2017 eftir að mikillar myglu varð þar vart. Bankinn flutti starfsemi sína þangað árið 1995.

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, segir í samtali við fréttastofu að verðlaunatillaga um nýtt deiliskipulag á reitnum hafi verið kynnt skipulagsráði Reykjavíkur í síðustu viku. Íslandssjóðir stýra uppbyggingunni á svæðinu.

Um 90% þeirra íbúða sem þegar eru tilbúnar eru seldar, að sögn Kjartans en það er 105 Miðborg sem annast uppbyggingu og sölu íbúðanna. 

Sú tillaga og aðrar verða til sýnis á veraldarvefnum innan skamms að sögn Kjartans en nú taki við vinna við nýtt deiliskipulag byggt á sigurtillögunni, í samstarfi við Reykjavíkurborg.

Það geti tekið allt að sex mánuði en niðurrifsleyfi sé ekki gefið fyrr en skipulagið liggur fyrir. Deiliskipulag fyrir Kirkjusand var fyrst kynnt árið 2016.

Kjartan Smári áréttar að húsið sé lokað og ekki í notkun, enda heilsuspillandi að vera þar innandyra. Þegar að niðurrifi komi verði varfærnislegum aðferðum beitt og spilliefni flokkuð frá.

Þannig megi koma í veg fyrir að umhverfið bíði skaða af framkvæmdunum.