Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Gera ráð fyrir fyrstu vögnunum í byrjun árs 2025

05.02.2021 - 17:45
Mynd: RUV / RUV
Fyrstu áfangar Borgarlínu kosta um þrjátíu milljarða króna og stefnt er að því að fyrstu vagnarnir leggi af stað eftir fjögur ár. Almenningi býðst nú að gera athugasemdir við þessi áform.

Skýrsluna má sjá á borgarlinan.is og þar eru eru skýrðar forsendur og sýndir fyrstu áfangar. Forverkhönnun hefst í maí. Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri segist ánægð með skýrsluna. „Við þurfum samt að átta okkur á því að þetta eru frumdrög. Þetta er fyrsta heildstæða tillagan. Hún fer núna í bæði kynningu og umræðu. Og ég geri alveg ráð fyrir því að það eigi eftir að verða líflegar umræður um þessar tillögur. Því við erum náttúrulega að fara þarna í gegnum, við skulum segja, þétta byggð. Og væntanlega svo einhverjar breytingar í kjölfarið á því sem verður þá miðlað inn í þegar við förum í for- og verkhönnun,“ segir Bergþóra. 

Opinbera hlutafélagið Betri samgöngur sér um framkvæmd Borgarlínunnar. Davíð Þorláksson er nýráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Hann segir að í frumdragaskýrslunni að þessari fyrstu lotu borgarlínunnar sé farið nákvæmar í útfærslur en áður og stefnt sé að því að hefja framkvæmdir á næstu þremur til fjórum árum. „Við getum séð fyrir okkur þá að fyrstu vagnarnir byrji að aka 2025. Hvað er áætlað að þessi fyrsti hluti kosti? Í samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir því að heildarfjárfestingin sé 50 milljarðar. Þessir fyrstu áfangar eru í kringum 30 milljarðar. Og það eru til peningar fyrir því? Já, það er til peningur fyrir því,“ segir Davíð.  

Í frumdrögunum segir að ferðatími styttist og þá er verið að tala um tímann með núverandi leiðakerfi Strætós og hins vegar nýju leiðaneti Borgarlínunnar. Styttingin nemur minnst fjórum mínútum frá Lækjartorgi að Grensásvegi og mest um tólf mínútum frá Spönginni að Hlemmi. Hlutfallslega mesta styttingin er frá Hamraborg í Kópavogi að Háskólanum í Reykjavík. Nú tekur það Strætó átján mínútur að aka þessa leið en hún tekur sjö mínútur með nýrri Fossvogsbrú. „Það er fleira í þessu. Við erum að létta af umferðinni á sama tíma þ.a. þú verður líka fljótari en ella að komast um á einkabílnum þó þú sért ekki í Borgarlínunni. Þannig að það eru kostir í því og svo er þetta auðvitað umhverfisvænna, minna kolefnisspor. Og það er eitthvað sem skiptir okkur auðvitað mjög miklu máli núna.“