Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Christopher Plummer er látinn

epa08989871 (FILE) - Canadian actor and cast member Christopher Plummer attends the press conference for 'The Forger' during the 39th annual Toronto International Film Festival (TIFF), in Toronto, Canada, 12 September 2014 (reissued 05 February 2021). According to media reports, Plummer has died at his home in Connecticut on 05 February 2021. He was 91. *** Local Caption *** 51567222  EPA-EFE/WARREN TODA
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Christopher Plummer er látinn

05.02.2021 - 18:51

Höfundar

Kanadíski leikarinn Christopher Plummer er látinn, 91 árs að aldri. Leikaraferill Plummer spannaði um sjö áratugi og lék hann meðal annars í stórmyndum á borð við The Sound of Music, þar sem hann lék margra barna föðurinn von Trapp. Af síðari kvikyndum hans má nefna kvikmynd Ridleys Scott, All the Money in the World, þar sem hann tók við hlutverki Kevins Spacey með skömmum fyrirvara.

Fyrir hlutverk sitt þar var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna og var hann þar með elsti leikarinn sem hefur fengið tilnefningu til slíkra verðlauna, en þá var hann 88 ára. Fyrstu Óskarstilnefninguna fékk hann árið 2010, þá áttræður.

Hann var fæddur í Toronto í Kanada árið 1929, barnabarn Johns Abbott, sem var þriðji forsætisráðherra landsins. Hann gekk til liðs við farandleikhús, hafði viðkomu í leikhúsunum á Broadway og lék sitt fyrsta aðalhlutverk á sviðið sem Hinrik V í Ontario í Kanada. Hann lék síðan með konunglega Shakespeare leikhúsinu í London og birtist fyrst á hvíta tjaldinu árið 1958 í kvikmyndinni Stage Struck.

Það var síðan með söngvamyndinni The Sound of Music sem frumsýnd var árið 1965 sem frægðarsól Plummer fór að rísa. Síðar sagði hann að hann hefði orðið ævareiður þegar honum var sagt að annar leikari myndi syngja í hans stað og honum var lengi í nöp við kvikmyndina. 

Af öðrum kvikmyndum Plummer má nefna Return of the Pink Panther frá 1975, The Man Who Would Be King þar sem hann lék Rudyard Kipling, hann lék  í nokkrum Star Trek myndum og fór með hlutverk sjónvarpsmannsins Mike Wallace í kvikmyndinni The Insider. 

Christopher Plummer var þrígiftur, fyrst Tammy Grimes, síðan Patriciu Lewis. Eftirlifandi eiginkona hans er Elaine Taylor, þau voru gift í 53 ár. Dóttir þeirra er leikkonan Amanda Plummer. Hann lést á heimili sínu í Connecticut í Bandaríkjunum.