Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Björgvin og Jóhanna Reykjavíkurmeistarar í Crossfit

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Björgvin og Jóhanna Reykjavíkurmeistarar í Crossfit

05.02.2021 - 19:11
Björgin Karl Guðmundsson tryggði sér titilinn í karlaflokki og Jóhanna Júlíusdóttir vann í kvennaflokki. Bæði eru þau ánægð með að fá að keppa aftur eftir langt hlé og Björgvin Karl hefur sett stefnuna á heimsmeistaratitil í Crossfit.

Í kvenna flokki kepptu Alma Káradóttir, Hjördís Ósk Óskarsdóttir, Jóhanna Júlíusdóttir, Sandra Árnadóttir og Tanja Davíðsdóttir. Í karlaflokki voru einnig fimm keppendur. Það voru Björgvin Karl Guðmundsson, Frederik Ægidius, Hafsteinn Gunnlaugsson, Haraldur Holgersson og Stefán Helgi Einarsson. 

Í fyrstu æfingu hjá konunum áttu þær að hlaupa 500 metra,  taka 30 snararnir með 40kg og hoppa 31 burpees yfir 50cm kassa. Í karlaflokki var hlaupið einnig 500 metrar og svo tóku við 30 snararnir með 60kg og 31 burpees yfir 60cm kassa. 

Hjá konunum var Jóhanna Júlíusdóttir í efsta sæti eftir fyrstu þrautina. Tanja Davíðsdóttir var í öðru sæti og Hjördís Ósk Óskarsdóttir í því þriðja.

Í karlaflokki var Björgvin Karl Guðmundsson efstur eftir fyrstu þraut. Frederik Ægidius í öðru sæti og Hafsteinn Gunnlaugsson í því þriðja. 

Æfing 2 hjá konunum fól í sér hjóla 16 kaloríur, fara 20 metra í handstöðugöngu og 30 metra framstig með 32kg ketilbjöllu. Fyrri tvær þrautirnar voru svo endurteknar, það er hjólið og handstöðugangan og síðan var því fylgt eftir með bændagöngu með 60kg lóð. Að lokum þurftu þær aftur að hjóla og taka handstöðugöngu og þrautin endaði á að ýta 14kg sleða 30 metra. 

Eftir æfingu 2 var Jóhanna Júlíusdóttir ennþá í efsta sæti og Tanja Davíðsdóttir í öðru sæti. Nú var Sandra Árnadóttir komin í þriðja sætið og þær Hjördís Ósk Óskarsdóttir og Alma Káradóttir voru jafnar í fjórða sæti. 

Karlarnir fóru í gegnum samskonar æfingu nema þeir þurftu að ná 20 kaloríum á hjólinu og voru með þyngri ketilbjöllur, lóð og sleða. Björgvin Karl Guðmundsson varð fyrir smá óhappi í upphafi æfingar þegar að hjólið hans hreinlega brotnaði og þurfti því að sækja nýtt hjól fyrir hann. 

Björgvin Karl var áfram efstur eftir æfingu 2 hjá körlunum, Frederik var í öðru sæti og Hafsteinn Gunnlaugsson og Haraldur Holgersson voru jafnir í þriðja sæti. 

Þriðja og lokaæfingin var svokölluð Chipper æfingar, sem er nokkuð löng æfing sem er samansett af mismunandi æfingum sem þarf að framkvæma í ákveðinni röð. Chipper æfingin í kvöld byrjaði á 10 handstöðuarmbeygjum, 15 sinnum tá í slá, 60 sinnum tvölfalt sipp, kasta bolta 15 sinnum yfir öxl, en boltinn var 40kg hjá konunum en 60kg hjá körlunum. Eftir boltann var komið að muscle-up þar sem þarf að fara úr hangandi stöðu, upp í djúpa dýfu og að lokum rétta úr höndum í fimleikahringjum. Karlarnir gerðu þá æfingur 10 sinnum en konurnar 7 sinnum. 

Jóhanna Júlíusdóttir var fyrst að klára lokaæfinguna hjá konunum og tryggði sér þar með sigurinn á mótinu. Tanja Davíðsdóttir var í öðru sæti, Sandra Árnadóttir í þriðja, Hjördís Ósk í fjórða og Alma Káradóttir í fimmta sæti. 

Björgin Karl Guðmundsson var fyrstu til að klára lokaæfinguna hjá körlunum og gulltryggði sér sigur á mótinu. Frederik Ægidius var í öðru sæti, Hafsteinn í þriðja, Haraldur í fjórða sæti og Stefán Helgi Einarsson í fimmta sæti.

Gaman að keppa aftur

Jóhanna Júlíusdóttir var að vonum ánægð með sigurinn og að fá að keppa aftur eftir langt hlé. „Ótrúlega gaman að fá loksins að keppa aftur eftir langa bið en stressið er alltaf til staða fyrir svona keppnir," sagði Jóhanna. Hún sagðist hafa tekið fyrstu æfinguna í að koma sér í gang en hafi alveg dottið í gírinn í æfingu 2.  

Stefnir á heimsmeistaratitil

Björgvin Karl segir afar gott að fá að keppa aftur þó svo að engir áhorfendur væru í salnum. „ Það er svo gott að fá tilfinninguna aftur að vera á keppnisgólfi þó það séu ekkert endilega áhorfendur. Það eru samt keppendur sem eru þarna í sama tilgangi og þú að reyna að vinna. Þannig að maður er að fá smjörþefinn af því sem koma skal," segir Björgvin Karl.

Hann var fyrirfram talinn sigurstranglegastur og viðurkenndi að það setti aukna pressu á sig. „Það er út af fyrir sig ágætlega mikil pressa. Ég get lofað þér því að ég var ekkert laus við þá pressu. Þegar ég fór að fatta að ég var í alvöru að fara að keppa hérna og það voru gaurar sem höfðu áhuga á að vinna mig. Það er oft kaldast á toppnum. En það er líka voða sætt að halda sig þar. En ég get alveg sagt þér það að ég var ekkert voðalega rólegur að koma hingað," segir Björgvin Karl.

Matthew Fraser, margfaldur heimsmeistari í Crossfit, er núna hættur og Björgvin Karl stefnir á að verða heimsmeistari á næstunni. „Allir orðnir langþreyttir á því að Mat Fraser sé búinn að vinna allt. Loksins hætti hann bara þannig að það þarf enginn að vinna hann. Það er alveg öruggt að það verði annar meistari í ár og ég ætla að gera mitt besta að láta hann vera frá Íslandi," segir Björgvin Karl.