Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Styður niðurstöðu starfshóps um Sundabraut

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fagnar niðurstöðu starfshóps um lagningu Sundabrautar og segir að hefjast þurfi handa.

Samgönguráðherra kynnti í gær skýrslu starfshóps Vegagerðarinnar um kosti varðandi Sundabraut. Þar er mælt með að byggð verði brú frekar en göng, enda sé það mun ódýrari kostur.  Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, tekur jákvætt í niðurstöðuna. 

„Mér finnst mjög jákvætt að menn séu komnir niður á eina ákveðna lausn og þá er ekkert að vanbúnaði að fara að hanna þetta út í enda og framkvæma, sem er mjög mikilvægt fyrir Reykjavík og landið allt.“ 

Ertu sammála þessari lausn? 

„Ég er sammála henni í grófum dráttum. Hún er hagkvæmari heldur en göng og býður þá up á möguleika bæði til að hjóla og annað, en hún er líka raunsæ varðandi leguna, þannig að ég held að það sé gott, en það er endalaust hægt að rífast um útfærsluna og við þurfum náttúrlega að vanda okkur í henni. En aðalatriðið er að það er búið að komast niður á það að brú er betri en göng.“ 

Sem kunnugt er hefur Sundabraut verið í umræðunni áratugum saman, en samgönguráðherra sagði í gær að brú frá Holtavegi um Gufunes og Geldinganes yfir í Kjalarnes gæti verið tilbúin eftir áratug. Eyþór hefur trú á að nú verði Sundabraut að veruleika.

„Við getum ekki annað vegna þess að þetta er svo mikilvægt til þess að leysa umferðarhnútana sem verða bara verri ef við förum ekki í stofnvegaframkvæmdir. Það átti nú að fara bæði í Arnarnesveginn í Reykjavík og Bústaðaveg á þessu ári og ég óttast að það verði ekki. Þannig að við þurfum að hysja upp um okkur buxurnar og fara hraðar í þessi verk, þetta er eitt af stóru málunum á þessum áratug.“