Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sérfræðingar WHO skoðuðu Veirufræðistofnun Wuhan í dag

Security personnel gather near the entrance of the Wuhan Institute of Virology during a visit by the World Health Organization team in Wuhan in China's Hubei province on Wednesday, Feb. 3, 2021. (AP Photo/Ng Han Guan)
Öryggisverðir við veirurannsóknarstofuna í Wuhan í morgun. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Sérfræðingahópur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem rannsakar nú upptök kórónuveirufaraldursins í Kína, heimsótti í dag Veirufræðistofnun Wuhan. Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og háttsettir ráðamenn og embættismenn Trump-stjórnarinnar hafa haldið því statt og stöðugt fram, án rökstuðnings, að faraldurinn hafi átt upptök sín á rannsóknastofu innan stofnunarinnar.

Veirufræðistofnun Wuhan er sú eina í Kína sem er sérstaklega hönnuð til að rannsaka lífshættulega og bráðsmitandi sýkla. Hún var sett á fót þegar SARS-veiran tók að breiðast um Asíu árið 2002 og þar starfar meðal annars veirufræðingurinn Shi Zhengli, sem hefur fengið viðurnefnið leðurblökukonan, en hún hefur sérhæft sig í kórónaveirum sem berast frá leðurblökum til manna, eins og sú sem veldur COVID-19 er talin hafa gert.

Vísindamenn telja mjög ósennilegt að kórónuveiran hafi orðið til á rannsóknastofu og CNN hefur eftir Peter Daszak, einum úr sérfræðingahópi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að hann hafi fulla trú á að rannsóknastofan gæti fyllsta öryggis: „Ég þekki rannsóknastofuna mjög vel. Þetta er góð stofa og sérfræðingar þar komust ansi nálægt því að spá því hvernig næsta SARS-veira yrði. En þau fundu hana ekki, eftir því sem ég best veit. En kannski komust þau svo nálægt því að fólk kennir þeim um þetta, það er kaldhæðnislegt.“

Sérfræðingahópurinn hóf rannsóknir í Wuhan í síðustu viku. Kínversk stjórnvöld fylgjast grannt með ferðum hópsins, en þau voru harðlega gagnrýnd fyrir að beita sér gegn komu sérfræðinganna.