Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lagt til að loðnukvótinn verði 127.300 tonn

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Hafrannsóknastofnun leggur til að loðnuveiði á vertíðinni verði rúm 127 þúsund tonn. Þetta er lokaráðgjöf og byggt á tveimur rannsóknaleiðangrum og er sú heildaryfirferð talin ná yfir allt útbreiðslusvæði hrygningarloðnu.

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar byggir á summu tveggja rannsóknaleiðangra sem farnir voru seinnipart janúar. Hrygningarstofn loðnu að þeim loknum er metinn á samtals 650 þúsund tonn.

„Fyrri leiðangurinn fór fram dagana 17. - 20. janúar með þátttöku þriggja skipa fyrir austan land. Við heildarstofnmat var notast við mælingar þessa leiðangurs sem voru sunnan við 65°N. Seinni leiðangurinn fór fram dagana 26. - 30. janúar með þátttöku alls átta skipa og dekkuðu þau Vestfjarða-, Norður- og norðanverð Austurmið,“ segir í tilkynngu frá Hafrannsóknastofnun. 

„Niðurstöður þess leiðangurs sem teknar voru með í heildarmatinu samanstóðu af mælingum fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og suður að 65°N fyrir austan land. Fyrri leiðangurinn náði aðeins yfir syðsta hluta útbreiðslusvæðis loðnu fyrir austan land því óveður komu í veg fyrir frekari mælingar norðar. Viku seinna gafst loks færi til að fara í framhald af þeim.“

Hafrannsóknastofnun telur að heildaryfirferð þessara tveggja leiðangra nái yfir allt útbreiðslusvæði hrygningarloðnu. Það gilti ekki um mælingar í desember og fyrri hluta janúar. Því voru niðurstöður þeirra leiðangra ekki notaðar í þessarri lokaráðgjöf.

„Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150.000 tonnum að teknu tilliti til afráns. Samkvæmt því leiðir þessi heildarmæling til veiðiráðgjafar upp á 127.300 tonn veturinn 2020/21 og kemur í stað fyrri ráðgjafar frá því í janúar.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV