Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kringlan stefnir á öskudagsviðburð í samkomubanni

04.02.2021 - 12:40
Mynd: RÚV - Freyr Arnarson / RÚV - Freyr Arnarson
Viðbúið er að allt að þrjú þúsund börn verði í Kringlunni á miðvikudaginn eftir hálfan mánuð, öskudaginn, þar sem efnt verður til viðburða og sælgæti í boði. Í fyrra komu um þrjú þúsund börn í Kringluna á öskudag. Kaupmenn í Kringlunni eru uggandi. Smáralind verður ekki viðburð á öskudag vegna aðstæðna og vísar til samkomubanns og sóttvarna. Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, segir að mikilvægt sé að gleðja börnin.

„Okkur langar svo mikið til að gleðja börn sem hafa kannski misst af mörgum uppákomum á erfiðu ári sem er liðið. Við sjáum til sólar en við erum auðvitað að fylgjast mjög grannt með frá degi til dags. En okkur langar svo að gleðja börn og erum að undirbúa að geta boðið þeim upp á að koma og gera sér glaðan dag. Þau geta komið í búningum og tekið þátt í uppákomu sem við vorum með í fyrra sem heitir Að slá köttinn úr tunnunni, þó það sé ekki lengur köttur. En að breyta þeim viðburði og vera með á nokkrum stöðum í húsinu til að dreifa fjölda og gæta ítrustu sóttvarna,“ segir Baldvina Snælaugsdóttir. 

Kaupmaður í Kringlunni sem ekki vildi láta nafns síns getið segist í samtali við fréttastofu hafa miklar áhyggjur af að smit kunni að koma upp með þessum öskudagsviðburði. Margir kaupmenn séu uggandi. Kaupmenn fengu orðsendingu frá Kringlunni:

Okkur langar mikið að gleðja börnin á þessum degi og vera með prógramm eins og í fyrra þegar við buðum við upp á viðburð á Blómatorgi, að slá köttinn úr tunnunni. Nú plönum við að skipta upp í 2-3 svæði í húsinu til að dreifa þátttakendum. Ítrustu sóttvörnum verður beitt. Við hvetjum alla til þess að vera með glaðning fyrir börnin.

Baldvina segir einnig sé til skoðunar að hafa sælgæti við innganga. „Í göngugötunum okkar eru ekki takmarkanir á fjölda en það eru fjöldatakmarkanir inni í verslunum. Þó það eigi ekki við um börnin þá eru auðvitað sum þeirra í fylgd með foreldrum,“ segir Baldvina.

Unnið sé með nokkrar sviðsmyndir. „Við ætlum okkur að finna leið til að hafa gaman með börnunum og gleðja þau,“ segir Baldvina. 

Finnst ykkur alveg ábyrgt á tímum sóttvarna og samkomubanns að skipuleggja svona viðburð?

„Það sem við erum að hugsa um eru auðvitað börnin. Við förum ekki út í þetta nema við getum tryggt að ítrustu sóttvarna verði gætt. Þetta eru börnin og það gilda aðrar reglur um þau. Þessa sviðsmynd erum við með uppi á borðum. En við tökum einn dag í einu og erum með þessi plön klár og erum að ræða þetta núna. Okkur langar að geta gert þetta og erum að vinna að þessu að geta þá dreift og haft þetta minna í sniðum heldur en þetta hefur verið áður. En að geta haft daginn skemmtilegan og gleðilegan fyrir börnin,“ segir Baldvina.