Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Greiða 911 milljarða í skaðabætur

epa08986842 (FILE) An a erial view o  mud and waste from the disaster caused by dam spill in Brumadinho, Minas Gerais, Brazil, 26 January 2019 (reissued 04 February 2021). Brazilian mining giant Vale SA reached a settlement agreement with the Brazilian state for the deadly Brumadinho dam disaster in January 2019, which killed 270 people. The iron ore producer will pay 7.03 billion USD, Vale said 04 February 2021.  EPA-EFE/Antonio Lacerda
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Brasilíska námafyrirtækið Vale hefur fallist á að greiða jafnvirði 911 milljarða króna í skaðabætur vegna stíflu sem brast árið 2019. Þetta eru hæstu skaðabætur sem greiddar hafa verið í Suður-Ameríku.

Tvö hundruð og sjötíu létust þegar Brumadinho-stíflan brast með þeim afleiðingum að milljónir tonna af eitraðri leðju flæddu yfir íbúðarhús og ræktarland. Í samkomulaginu sem staðfest var í dag lofar risafyrirtækið að greiða þeim skaðabætur sem urðu  fyrir tjóni og lagfæra allt í náttúrunni sem skaðaðist þar sem leðjan flæddi yfir.

Að sögn brasilískra fjölmiðla söfnuðust þeir sem urðu fyrir tjóni saman utan við dómshúsið þar sem niðurstaðan var kynnt og mótmæltu. Að þeirra mati hefðu skaðabæturnar átt að verða mun hærri. Nokkrir hótuðu að fara með samkomulagið fyrir hæstarétt Brasilíu.

Stjórnvöld í Minas Gerais ríki þar sem stíflan var fóru fram á mun hærri skaðabætur en samið var um. Að þeirra sögn fellst Vale á að greiða viðbætur reynist tjónið vera meira en áætlað var.

Enn eru í gangi málaferli gegn sextán manns, þar á meðal fyrrverandi forstjóra Vale. Þeir hafa verið ákærðir fyrir manndráp af ásettu ráði, þar sem þeir hafi árum saman vitað af skemmdum í stíflunni en ekkert aðhafst.