Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Býst við að tilslakanir taki fljótlega gildi

Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir / RÚV
Sóttvarnalæknir býst við að þær tillögur sem hann leggi til við heilbrigðisráðherra, öðru hvoru megin við helgina, taki gildi áður en núverandi reglur falla úr gildi. Bíða verði í hálfan mánuð hið minnsta með næstu tilslakanir. Mikilvægt sé að fara mjög varlega í tilslakanir, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Lagðar verði til vægar breytingar í fyrstu atrennu. 

„Ég er alla vega ekki að reikna með því að þær tillögur bíði til 17. Ef það væri myndi ég bara bíða með mínar tillögur þangað til nær dregur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í viðtali við Þórdísi Arnljótsdóttur.

Hvenær ætlarðu svo að leggja mat á hvað tekur við eftir 17. febrúar?

„Það er bara í framhaldinu þegar nær dregur 17. Ef við förum í einhverjar tilslakanir núna fljótlega þá þurfum við náttúrulega að leggja mat á það eins og við höfum alltaf gert. Það tekur eina til tvær vikur að sjá árangurinn af því,“ segir Þórólfur.

Fólki finnst skrítið af því að það eru svo fá smit hér að við séum enn í þetta hörðum aðgerðum. Er það sem þú lítur helst til fjöldi virkra smita á landamærum?

„Við erum með töluvert af smitum á landamærunum. Að vísu hefur þeim fækkað núna undanfarið vegna þess að farþegum hefur fækkað. En við erum með meira smitandi afbrigði sem er að breiðast hraðar út og það gæti orðið mjög erfitt fyrir okkur að ráða við það ef það kemur hingað inn. Ég minni á að þriðja bylgjan byrjaði út frá einum eða tveimur einstaklingum frá landamærum. Þannig að það þarf voðalega lítið til og það er þess vegna sem við erum að fara mjög varlega. Sérstaklega núna þegar við erum að fara inn í aukna þátttöku í bólusetningum. Það væri mjög slæmt ef við fengum á næstu vikum aðra bylgju á sama tíma og við erum að reyna að bólusetja sem flesta. Þannig að það er á þeim grunni sem ég held að við þurfum að fara mjög varlega í tilslökunum. En ég minni á að við erum með miklu, miklu vægari takmarkandi aðgerðir hér en í flestum öðrum Evrópulöndum,“ segir Þórólfur.