Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bandaríkin hætta fjárveitingum til stjórnarhers Jemen

04.02.2021 - 21:44
epa08987651 US President Joe Biden makes a foreign policy speech at the State Department in Washington, DC, USA, 04 February 2021. Biden announced that he is ending US support for the Saudi’s offensive operations in Yemen.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden Bandaríkjaforseti kynnti í kvöld róttækar breytingar á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Hann sagði að Bandaríkin myndu hætta fjárveitingum til stjórnarhersins í Jemen, sem er studdur af Sádí-Aröbum gegn uppreisnarsveitum Húta. Hann sagðist einnig myndu beita sér gegn vopnasölu þar í landi.

Yfirlýsing Bidens er skýr stefnubreyting, enda jukust fjárframlög Bandaríkjanna til stjórnarhersins í valdatíð Donalds Trumps. 

Borgarastríð hefur geisað í fimm ár í Jemen milli stjórnarhers landsins og uppreisnarsveita Húta, sem njóta stuðnings Írana. Sádi-Arabar styðja við bakið á stjórnarhernum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa margoft varað við ástandinu í Jemen, og sagt að alvarlegasta hungursneyð í marga áratugi sé þar yfirvofandi verði ekkert að gert. Hætta er á að milljónir landsmanna svelti til bana. Þá er það mat Barnahjálparsjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) að hvergi sé ástandið verra af völdum stríðsátaka en í Jemen.

Mike Pompeo fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna lýsti því yfir í byrjun janúar að Hútar, samtök síja-múslíma, yrðu skilgreindir sem hryðjuverkasamtök en ákvörðunin var harðlega gagnrýnd af hjálpar- og líknarsamtökum sem sögðu að slík yfirlýsing væri aðeins til þess fallin að gera ástandið þar í landi enn verra.