
Bandaríkin hætta fjárveitingum til stjórnarhers Jemen
Yfirlýsing Bidens er skýr stefnubreyting, enda jukust fjárframlög Bandaríkjanna til stjórnarhersins í valdatíð Donalds Trumps.
Borgarastríð hefur geisað í fimm ár í Jemen milli stjórnarhers landsins og uppreisnarsveita Húta, sem njóta stuðnings Írana. Sádi-Arabar styðja við bakið á stjórnarhernum.
Sameinuðu þjóðirnar hafa margoft varað við ástandinu í Jemen, og sagt að alvarlegasta hungursneyð í marga áratugi sé þar yfirvofandi verði ekkert að gert. Hætta er á að milljónir landsmanna svelti til bana. Þá er það mat Barnahjálparsjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) að hvergi sé ástandið verra af völdum stríðsátaka en í Jemen.
Mike Pompeo fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna lýsti því yfir í byrjun janúar að Hútar, samtök síja-múslíma, yrðu skilgreindir sem hryðjuverkasamtök en ákvörðunin var harðlega gagnrýnd af hjálpar- og líknarsamtökum sem sögðu að slík yfirlýsing væri aðeins til þess fallin að gera ástandið þar í landi enn verra.