Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Andrés Ingi liggur undir feldi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, segist ekki hafa gert upp við sig hvort hann muni bjóða sig fram til áframhaldandi þingsetu og fyrir hvaða flokk. Hann segir stöðu sína flókna.

Andrés Ingi var gestur Síðdegisútvarpsins á Rás tvö í dag þar sem hann var spurður um áform sín. Hann var kjörinn á þing haustið 2017 fyrir Vinstri græn, en studdi ekki stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og það gerði heldur ekki Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, sem síðan gekk til liðs við Samfylkinguna í desember síðastliðnum. 

Andrés Ingi sagði sig úr þingflokknum í nóvember 2019 og sagði aðgerðaleysi í loftslagsmálum og útlendingamál vera meðal ástæðna fyrir úrsögninni. Hann hefur starfað sem óháður þingmaður síðan þá.

„Ég er bara ekki búinn að lenda því,“ svaraði Andrés Ingi spurður um framtíðaráform sín í stjórnmálum. „Það er pínu flókið að finna sér samastað þegar maður dettur úr flokki sem maður hefur tilheyrt í heilan áratug. Heitir það ekki að liggja undir feldi? Ég er ennþá þar.“