Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ákærður fyrir brot gegn börnum í Austurbæjarskóla

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Karlmaður hefur verið ákærður fyrir kynferðislega áreitni og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa farið í heimildarleysi inn í Austurbæjarskóla í Reykjavík í september 2019 og brotið þar gegn þremur nemendum skólans. Málið var þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur í dag.

Í fyrsta lagi er maðurinn ákærður fyrir að lokka níu ára gamla stúlku upp á rishæð skólans þar sem hann kleip hana í rassinn og strauk læri hennar og kynfæri utanklæða.

Í öðru lagi er hann ákærður fyrir að hafa slegið fjórtán ára dreng á rassinn og í þriðja lagi er hann ákærður fyrir að hafa sest á bekk við hlið fimmtán ára stúlku og fært sig nær henni þegar hún reyndi að komast undan honum. Hann setti hönd á annað læri stúlkunnar og elti hana þegar hún stóð upp, þar til hún fór til hóps af drengjum.

Háttsemi hans er talin varða við bæði almenn hegningarlög og barnaverndarlög. Þess er krafist að hann veðir dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þess er krafist fyrir hönd annarrar stúlkunnar að ákærða greiði henni 800 þúsund krónur í miskabætur, auk vaxta. Þá er krafist þóknunar vegna réttargæslu. 

Móðir yngri stúlkunnar sagði í viðtali við Morgunblaðið í september 2019 að áfallið hefði fengið verulega á stúlkuna. Hún hefði fengið martraðir á eftir. Móðirin sagðist hafa orðið reið, meira gagnvart skólanum en manninum.

„Ég varð reið við skól­ann því ég hélt að barnið mitt væri ör­uggt þar. Ég get ekki hugsað þá hugs­un til enda hvað hefði getað gerst ef dótt­ir mín hefði frosið og ekki getað hreyft sig, eins og mér skilst að séu al­geng viðbrögð í svona aðstæðum. Það vona auðvitað all­ir að barnið þeirra muni ekki upp­lifa neitt svona, en þetta eru aðstæður sem öll börn geta lent í,“ sagði móðirin í viðtali við Morgunblaðið.

Í kjölfar þessa máls var aðgengi að grunnskólum endurskoðað.