Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

16 þúsund núlifandi Íslendingar hafa fengið krabbamein

04.02.2021 - 17:54
©Kristinn Ingvarsson
 Mynd: Kristinn Ingvarsson - Háskóli Íslands
Dánartíðni af völdum krabbameina á Íslandi hefur dregist saman um meira en 60 prósent hjá báðum kynjum á síðustu tuttugu árum. Í dag er alþjóðlegi krabbameinsdagurinn og Laufey Tryggvadóttir, forstöðumaður rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélagsins, segir að hollara mataræði og aukin hreyfing hafi átt stóran þátt í því að draga úr dánartíðni - en að nú þurfi átak til að draga úr ofþyngd og áfengisneyslu. 

„Skýringar á þessari lækkun eru margar og sterkast koma þar inn framfarir í meðferð og það hvað gífurlega hefur dregið úr reykingum, og svo snemmgreining. Ég hugsa að þetta þrennt skipti einna mestu máli. Til dæmis hefur skimun fyrir forstigum leghálskrabbameins forðað um 500 íslenskum konum frá ótímabærum dauða,“ segir Laufey. 

Minni líkur en fleiri greinast

Laufey segir að þrátt fyrir að hættan á því að hver og einn fái krabbamein sé farin að minnka fjölgi þeim sem greinast. „Það er vegna fólksfjölgunar og hlutfallslegrar aukningar eldra fólks í samfélaginu, en nýgengi krabbameina eykst með aldrinum,“ segir hún. 

Er það áhyggjuefni fyrir heilbrigðiskerfið hér á landi? Að öldrun þjóðar fjölgi krabbameinsgreiningum?

„Já, það verður gífurlegt álag á heilbrigðiskerfið og það verða háar tölur eftir 20-30 ár af fólki sem greinist á hverju ári og það er eitthvað sem heilbrigðiskerfið þarf að gera ráð fyrir. Nú greinast um 1.700 á ári en þeim mun fjölga, strax á næstu tíu árum,“ segir hún. 

Margt gott í þróuninni

Horfur á Íslandi eru góðar miðað við önnur Evrópulönd og nú eru hér á lífi um 16.000 manns sem greinst hafa með krabbamein og er stór hluti þeirra læknaður. Laufey segir að það sé mjög jákvætt að nú standi til að heilsugæslan geri HPV-greiningar og að með því fjölgi mjög HPV-mælingum. „Svo er mjög jákvætt að á næstu árum komast upp á skimunaraldur stúlkur sem fengu bólusetningu við HPV-veirunni þegar þær voru yngri,“ segir hún og bendir líka á að það sé jákvætt að nú eigi að hætta að rukka fyrir skimun. „Þá skiptir bara máli að fólk mæti vel,“ segir hún.  

Gæðaskráning tekin upp

Laufey segir að alltaf séu stöðugar framfarir og að nýlega hafi Krabbameinsfélagið gert samkomulag við stóru sjúkrahúsin um að taka upp gæðaskráningu á greiningu og meðferð krabbameina. „Þetta er samræmd söfnun og skráning upplýsinga um meðferð og greiningu og er að ryðja sér til rúms víða erlendis. Slíkt er mikið hagsmunamál þeirra sem greinast með krabbamein því þarna fæst yfirlit yfir ferli krabbameinssjúklinga frá aðdraganda greiningar til loka fyrstu meðferðar. Einnig er fylgst með sjúklingum að meðferð lokinni fram að endurkomu sjúkdóms. Annars er ekki hægt að vita hvernig við stöndum í samanburði við önnur lönd varðandi bestu gæði meðferðar og greiningar,“ segir hún.