Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Yfir 70 heimili eyðilögð í gróðureldum við Perth

03.02.2021 - 02:21
epa08981281 A handout photo made available by Western Australia's Department of Fire and Emergency Services (DFES) shows DFES fire fighters battling a blaze in Brigadoon, a suburb of Perth, Western Australia, Australia, 02 February 2021. An out-of-control bushfire burning near the Perth Hills has engulfed at least three homes and is threatening more, with locals in a large swathe of the region told it is too late to leave.  EPA-EFE/EVAN COLLIS/DFES HANDOUT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - DFES
Yfir 70 heimili í útjaðri áströlsku borgarinnar Perth hafa síðustu daga orðið gróðureldum að bráð. Hundruð slökkviliðsmanna leggja dag við nótt í baráttunni við eldana en verður lítt ágengt, þar sem hlýir og hvassir vindar blása stöðugt í glæðurnar og torvelda slökkvistörfin til muna. Mikinn og þykkan reyk leggur yfir borgina og víðtækar lokanir, strangar ferðatakmarkanir og aðrar sóttvarnaaðgerðir vegna COVID-19 gera ástandið enn erfiðara viðfangs en ella.

Borgarbúar sem ekki búa á skilgreindu hættusvæði eru beðnir að halda sig heima en íbúar úthverfanna sem næst eru eldunum hafa verið hvattir til að rýma hús sín og forða sér í öruggt skjól.

Þó eru einnig  dæmi um að fólk á hættusvæðum hafi verið beðið að halda sig heima þar sem það sé orðið um seinan að flýja með öruggum hætti. Þess í stað skuli það „leita skjóls í þeim hluta hússins sem fjærst er eldunum og gæta þess að hægt sé að komast auðveldlega þaðan út" ef nauðsyn krefur og flótti reynist eina mögulega lausnin.

Eldarnir kviknuðu um hádegi á mánudag að staðartíma og hafa nú sviðið um 100 ferkílómetra gróðurlendis. Eldsupptök eru ókunn en þó vitað að eldurinn kviknaði „nærri íbúðarhúsi." Perth er fylkishöfuðborg Vestur-Ástralíu. Þar búa um tvær milljónir manna.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV