Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Segir stríð ríkisstjórnar við serrano skinku broslegt

03.02.2021 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði tollkvóta á erlendar landbúnaðarvörur einungis hækka verð til neytenda og hún segir ríkisstjórnina einhuga í því að draga úr samkeppni, hækka verð og draga úr valmöguleikum almennings.

Hún tekur sem dæmi að parma skinka eða serrano skinka þá 29 faldast útboðsgjald sem innflutningsaðilar þurfa að greiða.

Hún segir stríð ríkistjórnarinnar við serrano skinkuna broslegt og spyr hvort almenningi stafi hætta af parma skinkunni.

„Aðgerðir stjórnvalda núna byggja nefnilega ekki á beinum stuðningi við rekstraraðila heldur eingöngu á því að skerða stöðu keppinauta. Þetta er á skjön við aðrar stuðningsaðgerðir ríkisstjórnarinnar núna þar sem aðgerðirnar hafa einmitt verið fólgnar í beinum stuðningi,“ segir Þorbjörg. 

„Íslensk matvælaframleiðsla verðskuldar vitaskuld stuðning og að búa við aðstæður og umgjörð til að blómstra en stríð ríkisstjórnarinnar við serrano skinkuna er dálítið broslegt.

Varnarmúr stjórnvalda á landamærunum er ógnarhár. Stafar almenningi mögulega hætta af parma skinku sem við ekki þekkjum er þetta eitthvert öryggismál eða hvers vegna er ríkisstjórnin einhuga í því markmiði að draga úr samkeppni hækka verð og fækka valmöguleikum almennings?“ Spurði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir á Alþingi í dag. 
 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV