
Seðlabankastjóri segir draga úr verðbólgu á næstunni
Verðbólgan jókst í janúar upp í 4,3%. Svo mikil hefur hún ekki verið síðan í ágúst 2013. Verðbólgan fór yfir svonefnd efri vikmörk verðbólgumarkmiða Seðlabankans en þau eru 4% en verðbólgumarkmið bankans er 2,5%. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að þrátt fyrir svo háa verðbólgu hafi ekki verið ástæða að hækka meginvexti bankans sem áður voru kallaðir stýrivextir:
„Við teljum að hún muni ganga niður á næstu mánuðum. Þessi aukna verðbólga stafar að miklu leyti af lækkun á gengi krónunnar og slíkum þáttum. Og núna hefur krónan í raun og veru aðeins hækkað og haldist stöðug. Það er mikill samdráttur í kerfinu og mikið atvinnuleysi þannig að við höldum það að verðbólga muni ganga niður.“
Seðlabankastjóri segir horfurnar núna að séu betri að sumu leyti betri því innlend eftirspurn hafi aukist og þær aðgerðir sem bankinn hafi gripið til á síðasta ári hafi valdið því að hagkerfið innanlands hafi tekið við sér.
„En horfur eru verri að því leyti að útflutningshorfur eru verri að þessu ári. Það er bæði vegna þess að það mun taka lengri tíma að koma ferðaþjónustunni aftur af stað. Svo eru þessar lokanir úti að hafa slæm áhrif eins og á sjávarútveg og aðrar greinar hér. Við erum kannski að horfa á að í útflutningsgreinunum að það sé ekki eins bjart útlit og var.“
Hvenær heldurðu að þetta fari í gang eins og ferðaþjónustan?
„Við erum svona að gera ráð fyrir því að það verði svona á þriðja ársfjórðungi á þessu ári,“ segir Ásgeir Jónsson.
Yfirlýsingu peningastefnunefndar og nýjustu útgáfu Peningamála má sjá hér.