Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Öryggisráð SÞ: Enn engin ályktun um valdarán í Mjanmar

03.02.2021 - 06:18
epa08983136 Medical workers wearing red ribbons hold the placards with the sign of red ribbon - a symbol of resistance against the military coup - as they line up for a group photograph at Central Women's Hospital in Yangon, Myanmar, 03 February 2021. Medical workers are participating in a nationwide strike as part of a civil disobedience campaign protesting against the recent military coup. Myanmar?s military seized power and declared a state of emergency for one year after arresting State Counselor Aung San Suu Kyi and Myanmar president Win Myint in an early morning raid on 01 February, following increasing tension over the result of last November's parliamentary elections.  EPA-EFE/LYNN BO BO
Starfsfólk yfir 70 sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva í 30 borgum og bæjum Mjanmar mótmælti í gær valdaráni hersins Mynd: epa
Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna tókst ekki að koma sér saman um ályktun til fordæmingar á valdaráni hersins í Mjanmar á dögunum. Bretar lögðu fram tillögu að slíkri ályktun á lokuðum fundi ráðsins en samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar voru Kínverjar og Rússar ekki sáttir við orðalag í drögunum og fóru fram á lengri umþóttunartíma. Enn sé þó til umræðu innan ráðsins að álykta gegn valdaráninu.

Herinn í Mjanmar rændi völdum í landinu á mánudag og handtók hundruð háttsettra stjórnmálamanna, þar á meðal forsetann Win Myint, Aung San Su Kyi, leiðtoga Lýðræðisfylkingarinnar og fjölda þingmanna úr hennar röðum. Fullyrða forsprakkar valdaránsins að Lýðræðisfylkingin hafi tryggt sér meirihluta á þinginu með víðtækum kosningasvikum.

Kallar eftir einróma fordæmingu á valdaráninu

Valdaránið hefur verið fordæmt víða um heim og kallað er eftir viðbrögðum öryggisráðsins. Christine Schraner Burgener, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Mjanmar, upplýsti öryggisráðið um stöðu mála í landinu í gær og hvatti það til að senda herstjórninni skýr skilaboð. „Ég fordæmi aðgerðir hersins síðustu daga og hvet ykkur öll til að senda einróma og afdráttarlaus skilaboð um stuðning við lýðræðið í Mjanmar," sagði Schraner Burgener er hún ávarpaði ráðið.

„Við skulum tala skýrt, niðurstaða nýafstaðinna kosninga var yfirburðasigur Lýðræðisfylkingarinnar. Rétt er að andmæla áformum hersins um að halda nýjar kosningar," sagði erindrekinn. Talsmenn hersins lýstu því yfir á mánudag að boðað verði til kosninga í landinu að ári, en þangað til verði neyðarlög í gildi.