Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ítalíuforseti vill að Mario Draghi leiði þjóðstjórn

epa08982567 Giovanni Grasso (councilor for the press and communication of the Quirinale) releases a statement to the press in the Salone delle Feste del Quirinale, in Rome, Italy, 02 February 2021. The President of the Republic Sergio Mattarella has summoned former President of the European Central Bank President Mario Draghi for a meeting the following morning.  EPA-EFE/ALESSANDRO DI MEO / POOL
Giovanni Grasso, talsmaður Sergios Mattarellos Ítalíuforseta, kunngjörir áform forsetans um að boða Mario Draghi á sinn fund til að fá honum það verkefni að mynda þjóðstjórn Mynd: EPA-EFE - ANSA POOL
Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, hyggst fara þess á leit við Mario Draghi, fyrrverandi forstjóra Seðlabanka Evrópu, að leiða þjóðstjórn sem ætlað er að takast á við neyðarástandið sem skapast hefur í heilbrigðiskerfi og efnahagslífi landsins vegna COVID-19.

Mattarella boðaði Draghi til fundar við sig á hádegi í dag, miðvikudag, eftir að ljóst varð að Giuseppe Conte, forsætisráðherra, mistókst að forða ríkisstjórn sinni frá falli.

Mattarella sagði fréttamönnum í gærkvöld að það væri skylda sín sem forseta að „biðla til allra stjórnmálaafla [að styðja] ríkisstjórn málsmetandi manna.“ Sagði hann þetta vænlegra en eina valkostinn; að rjúfa þing og boða til kosninga. Það væri ekki skynsamlegt í ljósi þess mikla vanda sem ítalskt samfélag stæði frammi fyrir.

Hagfræðingur með mikla reynslu af krísustjórn

Mario Draghi er 73 ára gamall hagfræðingur, sem veitti evrópska seðlabankanum forstöðu á árunum 2011 - 2019 eftir sjö ár sem seðlabankastjóri Ítalíu. Mikið mæddi á honum í skuldakreppunni upp úr 2010 og er honum iðulega þakkað að hafa forðað evrusamstarfinu frá því að fara út um þúfur.

Óvíst um stuðning

Hvort Mattarella verður að ósk sinni um myndun þjóðstjórnar undir forsæti Draghis skýrist á næstu dögum og jafnvel strax í dag. Haft er eftir ónefndum en háttsettum liðsmanni Fimmstjörnuhreyfingarinnar, stærsta flokknum í fráfarandi ríkisstjórn, að hún muni aldrei styðja ríkisstjórn með Draghi í brúnni.

Formenn Demókrata og Italia Viva, helstu samstarfsflokka hreyfingarinnar í seinni ríkisstjórn Contes, segjast hins vegar reiðubúnir að styðja og taka sæti í þjóðstjórn með Draghi í forsæti. Leiðtogar stærstu hægriflokkanna í stjórnarandstöðu, Norðurbandalagsins og Forza Italia, hafa enn ekki tjáð sig opinberlega um hugmynd forsetans. Það hefur Mario Draghi heldur ekki gert.