Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvort er verra fyrir malbik, nagladekk eða salt?

03.02.2021 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Margir hafa tekið ástfóstri við nagladekk og finna til mikillar öryggiskenndar akandi á þeim í hálku. En þeim hefur verið kennt um að valda svifryki með því að slíta og eyða malbiki. Þá vilja sumir meina að saltið sem borið er á götur í hálku sé meiri skaðvaldur en naglarnir. En hvort slítur malbiki meira? „Nagladekkin en saltið hjálpar til vegna þess að það heldur yfirborðinu blautu. Og blautt yfirborð slitnar miklu meira en þurrt,“ segir malbikssérfræðingur.

„Það sannast bara þegar þú ferð í göng þar sem er þurrt, þar er miklu minna slit heldur en þegar þú kemur út fyrir. Saltið sem sagt, það bræðir snjóinn og klakann og veldur því að yfirborð malbiksins er blautt. Þannig það er í raun og veru það sem saltið gerir. Það veldur því að naglarnir ná að slíta meira en ella,“ segir Pétur Pétursson, sérfræðingur og ráðgjafi. 

Vegagerðin hélt nýverið blaðamannafund í beinu streymi til að ræða nýjar og auknar kröfur í malbiki og eftirliti með framkvæmdum. Margar spurningar sem sendar voru inn lutu að gæðum malbiks og hvort þau væru ekki minni hér á landi en í nágrannalöndunum. Pétur er til svars.

„Nei, að mínu mati er það ekki. Það hafa verið innleidd hérna rannsóknartæki sem eru samkvæmt Evrópustöðlum um framleiðslu malbiks. Þar á ég við hjólfaratæki til að mæla skrið í malbiki og tæki til að mæla slitþol malbikssýna. Þau hafa orðið til þess að malbiksframleiðendur hafa bætt sína framleiðslu mjög mikið og Vegagerðin hefur gert mjög miklar kröfur til allra efna sem fara í malbikið,“ segir Pétur.