Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Endurhæfingarteymi krabbameinsgreindra á vergangi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Aukin þörf er fyrir endurhæfingu og þjónustu við krabbameinssjúklinga hér á landi. Formaður Félags krabbameinslækna segir að endurhæfingarteymi krabbameinsgreindra sé aðstöðulaust á Landspítalanum, sem skjóti skökku við þegar þjónustuþörfin eykst sífellt.

Hér á landi greinst sífellt fleiri með krabbamein af ýmsum toga samhliða hækkandi lífaldri þjóðarinnar, auknum lífsgæðum og tækniframförum. Á hverju ári greinast um 1700 manns með krabbamein og um 16 þúsund manns hafa greinst með krabbamein á lífsleiðinni og lifa með sjúkdómnum. Gunnar Bjarni Ragnarsson formaður krabbameinslækna og læknir á Landspítala í endurhæfingateymi krabbameinsgreindra segir brýnt að hugað sé að endurhæfingu þessa hóps, sem fer sífellt stækkandi. 

„Við á endurhæfingarteymi krabbameinsgreindra á LSH sem er þverfaglegt endurhæfingarteymi höfum verið að sinna flóknustu tilvikunum og þurfum líka að sinna einhverskonar samhæfingarhlutverki í endurhæfingu þessa fólks í samfélaginu, til að leiðbeina því í gegnum kerfið. Og við höfum í raunninni enga aðstöðu núna fyrir okkar vinnu,“ segir Gunnar.

Endurhæfingin segir Gunnar að sé mikilvægur hluti af því að fólk komist aftur út út í lífið að lokinni meðferð við meini sínu. Sá hópur muni telja nokkra tugi þúsunda manns innan nokkurra áratuga, og endurhæfingarþörfin samhliða því. Fjármunina skorti hins vegar vegna hagræðingarkröfu á spítalanum.

„Það er peningaskortur og maður skilur það vel að það er forgangsraðað í meðferð. En okkur finnst samt skjóta skökku við að þegar þessi hópur er svona sístækkandi og þörfin eykst að við skulum ekki einu sinni hafa aðstöðu til þess. Sá peningur þarf þá að koma frá stjórnvöldum,“ segir Gunnar.