„Ég fylltist andstyggð á sjálfum mér“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég fylltist andstyggð á sjálfum mér“

03.02.2021 - 14:46

Höfundar

Hrafn Jökulsson lá í sjúkrarúmi á bráðamóttökunni vegna meins í hjarta, sem var afleiðing áfengisdrykkju, þegar hann heyrði fyrst fregnir af heimsfaraldri. Hann ákvað að hætta að drekka og byrja að taka til í lífinu og í náttúrunni. Síðasta ár hefur hann tekið til hendinni í Kolgrafarvík og nú er verið að endurútgefa bók hans Þar sem vegurinn endar sem fjallar um hans uppáhalds slóðir.

Hrafn Jökulsson rithöfundur hefur heitið því að skera ekki hár sitt fyrr en Kolgrafarvík á Ströndum í Árneshreppi hefur verið frelsuð og því er hann kominn með nokkuð mikinn lubba. Ásamt félögum sínum í Veraldarvinum gekk hann á síðasta ári í það viðamikla verkefni að hreinsa Kolgrafarvík og bindur hann vonir við að fá tækifæri til að fara í klippingu þegar verkinu lýkur. 

Leðurblaka hóf sig á loft og heimurinn breyttist

Ákvörðunin um að ráðast í þá hreinsun á sér athyglisverðan aðdraganda. „Hann er sá að leðurblaka hóf sig til lofts einhvers staðar í Kína og heimurinn breyttist,“ segir Hrafn sem fyrst fékk veður af faraldri sem byrjaður væri að dreifa sér um heimsbyggðina þar sem hann var staddur á bráðamóttökunni. „Ég held það hafi verið hjartað frekar en brisið sem var að gefa sig því eg hafði verið að drekka brennivín. Þá las ég frétt um yfirvofandi heimsfaraldur,“ rifjar hann upp.

Ætlar aldrei aftur að taka sjúkrahúspláss fyrir að drekka brennivín

Þetta var fyrir ári síðan og hann ákvað að gefa sjálfum sér loforð frá þeirri stundu. „Ég fylltist andstyggð á sjálfum mér yfir því að liggja þarna að taka sjúkrahúspláss því ég hafði verið að drekka brennivín. Ég ákvað að ég myndi aldrei aftur taka sjúkrahúspláss af þeirri ástæðu, sem leiddi til þess að ég ákvað að drekka ekki brennivín.“ Hrafn kíkti til Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1 og sagði frá ákvörðuninni og hreinsunarátakinu í Kolgrafarvík sem sannarlega hefur undið upp á sig.

Lá eins og flak í Fossvogi og hrópaði húrra

Þegar Hrafn sá í hvað stefndi í heiminum í faraldri gladdist hann á vissan hátt yfir því að mannkyn væri knúið til að breyta venjum sínum. „Ég áttaði mig á því að heimurinn væri að breytast og hann yrði aldrei samur. Allt mannkyn væri á leið í óvissuferð saman í fyrsta skipti í veraldarsögunni, við öll á mismunandi farrýmum vissulega,“ segir hann.

Geggjaður heimur neyslu og firringar

Og að vissu leyti þótti honum sú þróun sem blasti við vera fagnaðarefni. „Ég er svo skrýtinn að ég fagnaði þessu. Leit á þetta sem stórkostlegt tækifæri,“ segir hann. „Ég lá í Fossvoginum sem hálfgert flak og hrópaði húrra, ekki fyrir drepsótt, en fyrir því að þessi heimur sem við þekkjum væri kannski bara að breytast og mögulega líða undir lok. Þessi geggjaði heimur neyslu og firringar þar sem við látum eins og við séum ein í heiminum og þar sem allt hefur verið að fara til fjandans svo lengi, allir hafa vitað það og enginn hefur gert neitt í því.“

Svo hann ákvað að gera eitthvað í því. Og þegar hann hefur ákveðið eitthvað hrindir hann málunum í framkvæmd. Þrjóskuna nýtir hann sem drifkraft í verkefnum sínum, „Ég er kannski breyskasti maður sem finnst og gallaðasti en þó er ég þrjóskur. Ef ég set mér eitthvað markmið, og kannski því langsóttara og fráleitara, því betra. Þá bít ég í mig að ná því og geri allt, legg allt í sölurnar til að ná því þó ég þurfi að leggja allt annað til hliðar.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Plast og drasl sem hirt var upp í tiltektinni var til sýnis á sýningunni.

Uggvænlegar söguslóðir galdrafársins

Gríðarlegt magn plasts og úrgangs af ýmsum toga var á síðasta ári fjarlægt úr náttúrunni fyrir tilstilli Hrafns og félaganna í Veraldarvinum. Tiltektin hófst í fyrravor á þeim slóðum sem Hrafn þekkir best. Á Ströndum var hann í sveit sem ungur drengur og þá segir hann að sveitin og fjaran hafi verið sem ævintýraheimur en með tímanum hefur ruslið safnast þar upp og skyggt á fegurðina. .„Þarna er svo mikið af fallegum klettum og dröngum og líka einhverjar uggvænlegustu söguslóðir okkar sögu því þarna byrjaði sjálft galdrafárið,“ segir Hrafn. Í Kistuvogi fóru galdrabrennur fram á 17. öld og Hrafn segir að fræðimenn séu sammála um að þær hafi markað upphafið að galdrafárinu. „Þetta er magnaður staður, ein fallegasta vík á Íslandi en hún er sundurtætt. Ég ákvað að nú væri mál til komið að gera eitthvað í því.“

Sterkastur, fljótastur og minnstur í bekknum

Strandir eiga því mikilvægan stað í hjarta Hrafns sem varði þar sumrum frá átta til tólf ára aldurs og undi sér í stórbrotinni náttúrunni að vinna eða leika sér. Þegar hann kom aftur í bæinn á haustin skákaði hann bekkjarfélögum sínum í hraða og styrk eftir dugnaðinn. „Ég hljóp hraðast af öllum því ég hafði verið að smala og hlaupa á fjöll. Ég var sá sem hljóp upp kaðlana því ég var sterkastur en ég var samt minnstur í bekknum. Ég gat tekið alla stóru strákana og fellt þá í frímínútum því ég lærði að meðhöndla rekaviðardrumba.“

Á tímabili fjarlægðist hann slóðirnar andlega en fann tenginguna aftur síðar og nú er hún órjúfanleg. „Á óreiðuárunum á milli tvítugs og þrítugs fjarlægðist ég margt úr minni bernsku og mínum uppruna en svo kemur það til mín síðar, sterkara og öðruvísi,“ segir hann. „Það er gott að geta leitað á staði sem maður hefur sterka og djúpa tengingu við.“ Í dag er hann búsettur í Norðurfirði og ver þar mestum tíma árs.

Kolgrafarvík til Reykjavíkur

Drasl og gripi sem Hrafn og félagar söfnuðu saman í tiltektinni fluttu þau til Reykjavíkur þar sem sett var upp sýning sem lauk nú á laugardag. Sýningin nefndist Kolgrafarvík kemur í bæinn og vakti mikla lukku. Þar mátti sjá ýmist rusl en líka fallega gripi úr fjörunni og allt mátti snerta og þefa á. „Það var svakalega gaman að koma og sýna hvað Kolgrafarvík hefur upp á að bjóða. Þarna var ruslasaga 50-60 ár aftur í tímann og mér leið stundum eins og fornleifafræðingi.“

Frelsar köngulær og járnsmiði

En fyrst og fremst snýst tiltektin um að frelsa lífríki strandlengjunnar, „undan þessum hroða frá manninum því að það er lífríkið við strandlengjuna sem kvelst undan þessum netum og drasli,“ segir hann. „Það þarf að frelsa ormana, köngulærnar og járnsmiðinn og marflóna. Þetta eru okkar skjólstæðingar fyrst og fremst.“

Tiltektin vakti athygli og fjöldi fólks ákvað að leggja Hrafni lið. Til varð hópur sem kallar sig Veraldarvinir og í kjölfarið stofnaður Facebook-hópur í kringum félagsskapinn og átakið sem kallast Vinir Kolgrafarvíkur. Markmiðið er að virkja Íslendinga til að gerast sjálfboðaliðar í þágu náttúrunnar. Fólk getur skráð sig til þátttöku í eins konar náttúrubjörgunarsveit.

Bókin sér honum enn fyrir salti í grautinn fjórtán árum síðar

Árið 2007 skrifaði Hrafn bókina Þar sem vegurinn endar sem fjallar um minningar hans frá Ströndum og hugmyndir hans um Árneshrepp. Bókin hefur lifað góðu lífi síðustu fjórtán ár og er enn að rata til nýrra lesenda. Nú er hann að gefa hana út aftur. „Mér leið mjög vel þegar ég skrifaði þessa bók og á hlýjar minningar um hana. Sú staðreynd að þrettán árum síðar sé hún enn að sjá mér fyrir salti í grautinn gerir hana enn hjartfólgnari,“ segir hann. 

Skrifaði bók til að borga fyrir pípulagnirnar

Hrafn hefur sköpunarhæfnina og úrræðagæskuna frá foreldrum sínum. Hann minnist þess þegar hann var að alast upp og foreldra hans vantaði pústningu á húsnæði sem þau voru að koma sér upp á Seltjarnarnesi. Jökull Jakobsson faðir hans fékk þá hugmynd að hvetja konuna sína, Jóhönnu Kristjónsdóttur, til að skrifa skáldsögu og þéna þannig nægan pening fyrir framkvæmdunum. Hún sló til og sló í gegn. „Hún var þá tvítug, tveggja barna móðir nýútskrifuð úr MR. Hún settist niður og skrifaði bók sem varð metsölubók og ég held þetta hafi dugað fyrir pípulögnunum líka,“ segir Hrafn.

„Ég hugsa að ég þyki svolítið skrýtinn“

Hrafn er rithöfundur, náttúruverndarsinni og mikill skákmaður og hann viðurkennir að það þyki áreiðanlega einhverjum hann aðeins furðulegur. „Auðvitað finnst alls konar fólki alls konar hlutir um mig,“ segir hann sposkur. En á ströndum er fjölbreytileikanum fagnað. „Ég hugsa að ég þyki svolítið skrýtinn en það vill svo til að í samfélagi Strandamanna er mikið umburðarlyndi fyrir sérvisku og sérviska gefur lífinu lit. Það væri ekkert fútt ef við værum öll nákvæmlega eins en á meðan ég er ekki að vinna meira skaðræði en að taka til hlýtur þetta að vera í lagi,“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Hafn Jökulsson í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni.

 

Tengdar fréttir

Árneshreppur

Á við alla heimsins jógatíma og núvitundarnámskeið

Umhverfismál

Ver næstu fjórum árum í að hreinsa fjörur á Ströndum