Augu Sally Field björguðu Höllu á Ted-fyrirlestri

Mynd: RÚV / RÚV

Augu Sally Field björguðu Höllu á Ted-fyrirlestri

03.02.2021 - 12:50

Höfundar

Halla Tómasdóttir hefur oft þurft að kafa djúpt eftir hugrekkinu til að takast á við ákveðin verkefni. Sú var til að mynda raunin þegar hún stóð upp á sviði á Ted-fyrirlestri og var búin að steingleyma hvað hún ætlaði að segja.

Halla Tómasdóttir hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi frá því að hún fór fyrir Auði í krafti kvenna, verkefni sem átti að styðja konur og stelpur í frumkvöðlastarfsemi. Hugrekki er Höllu hugleikið og hún segist hafa þurft að leita lengi að hugrekkinu til að fara fyrir verkefninu. Halla var gestur Felix Bergssonar í þættinum Fram og til baka á Rás 2. 

Halla var beðin að halda fyrirlestur um efnahagshrunið á Íslandi og sýn sína á hvernig ætti að reisa efnahagskerfið við á Ted-ráðstefnu í Washington DC í Bandaríkjunum árið 2010. Beiðnin kom frá Pat Mitchell, fyrsta kvenforstjóra bandaríska ríkisútvarpsins PBS, sem stýrði ráðstefnunni. Halla var í fyrstu ekki á þeim buxunum að taka boðinu því að henni finnst erfitt að tala fyrir fullum sal af fólki. „Þegar ég er krakki er ég að læra á píanó og píanókennarinn minn er alltaf að biðja mig um að spila á tónleikum á sunnudögum. Þá var það ekki bara það að mig langaði ekki að vakna snemma heldur var það þannig að mér varð hreinlega flökurt áður en ég þurfti að vera ein á sviðinu. Það hefur alltaf verið í mér. Þetta verður auðveldara með æfingunni og þess vegna kalla ég þetta kjarkæfingu,” segir Halla. 

Halla kom til Washington DC á sunnudagskvöldi, eftir miðnætti að íslenskum tíma, og hafði notað flugferðina til að fullvinna fyrirlesturinn. Henni gekk illa að sofna. Um morguninn reif hún sig eldsnemma á fætur enda var æfing með öllum fyrirlesurunum klukkan sjö. „Ég mun aldrei gleyma þessum morgni. Ég kem þarna inn og þá er Hans Rosling að æfa, hann skrifaði bókina Factfulness, hann hafði verið mikil hetja mín,” segir Halla. Skömmu síðar gekk Madeleine Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í salinn og þá sagðist Halla hafa hugsað hvað hún hefði eiginlega að segja í samanburði við þessar stórstjörnur.  

Stuttu síðar var komið að Höllu að æfa sinn fyrirlestur. Hún kom sér fyrir á réttum stað á æfingasviðinu og byrjaði að tala. Fyrirlesturinn fjallaði að mestu um ýmis gögn og tölfræði sem sýndu fram á kostina við að fjárfesta í fyrirtækjum í eigu kvenna. Eftir örfáar mínútur var hún stöðvuð og Chris Anderson bað hana að koma og tala við sig. Anderson er aðalritstjóri Ted og fylgdist með æfingum allra fyrirlesaranna. 

„Ég hef engan áhuga á að heyra þessa tölfræði, það geta allir sagt mér hana. Ég vil bara heyra þína sögu, ég vil að þú segir mér af hverju þú ákveður að stofna þetta fyrirtæki. Hvernig þú telur að hlutirnir eigi að vera,” sagði Anderson. Halla fraus enda var fyrirlesturinn hennar ónýtur og hún átti að fara á svið klukkan eitt daginn eftir. Hún fór rakleitt á hótelið að semja nýjan fyrirlestur en fannst ekkert ganga. 

Ósofin mætti hún í græna herbergið daginn eftir. Þar hitti hún viðskiptajöfurinn Ted Turner sem sagðist hafa tapað talsverðum fjárhæðum við fall íslensku bankanna. Halla svaraði á léttu nótunum og sagði að hann hefði betur fjárfest í Auði Capital, bankanum sem hún stofnaði. Svo heyrði hún að nafnið hennar var kallað upp og staulaðist skjálfandi á beinunum upp á svið. Hún kom sér fyrir á réttum stað á sviðinu en var búin að steingleyma öllu sem hún ætlaði að segja. „Þarna langaði mig bara aftur af sviðinu. Bara gleymdi öllu. Ég mundi ekki neitt, þetta var mjög auðmýkjandi,” segir Halla.

Hún horfði á fólkið í fremstu röðunum þar sem margir bestu fyrirlesarar heims sátu, fólk sem Halla ber ómælda virðingu fyrir. Hún komst að lokum í gegnum fyrirlesturinn með einföldum hætti. Þegar hún leit yfir salinn sá hún í  bandarísku leikkonuna Sally Field. „Hún er með risastór brún augu, ég horfi bara í augun á henni og reyni bara að tala við hana. Einhvern veginn staulast ég síðan út af sviðinu og ein af þeim fyrstu sem gefur mér faðmlag eftir að ég kem af sviðinu er Sally Field,” segir Halla. Enn í dag veit Halla ekki hvað hún sagði á þessum fyrirlestri, hún hefur ekki haft kjark til að horfa á upptökuna. Trúlega gekk fyrirlesturinn þó vel þar sem hún hefur talað á fjölmörgum sambærilegum viðburðum. „Það sem ég held að hafi gerst þarna, ég gat ekki verið í hausnum af því ég mundi ekki neitt, var búin að gleyma öllu. Ég varð bara að fara niður í hjartað, þar situr hugrekkið,” segir Halla.