Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra bauð Dönum aðstoð

03.02.2021 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra hér á landi hefur boðið dönsku lögreglunni aðstoð íslenskra lögregluyfirvalda við rannsókn á morði á íslenskri konu í Malling í Árósum í Danmörku. Þetta staðfestir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, í samtali við fréttastofu.

Danskur karlmaður á sextugsaldri játaði í dag að hafa orðið íslenskri konu að bana á heimili hennar í Malling í Árósum. Lögreglan telur manninn hafa þrengt að hálsi hennar þannig að hún lést, hlutað lík hennar í sundur og falið líkamshlutana í húsinu og í garðinum við húsið.

Danska lögreglan lýsti eftir Freyju Egilsdóttur Mogensen, 43 ára gamalli íslenskri konu, í gærkvöld.  Hún hafði þá ekki sést síðan seint á fimmtudagskvöld en hafði tilkynnt sig veika til vinnuveitanda síns á laugardag með sms-i, en nú er til rannsóknar hvort hún hafi sent sms-ið sjálf. 

Karl Steinar gefur það hvorki upp hvers konar aðstoð alþjóðadeildin gæti veitt né hvernig dönsk lögregluyfirvöld hafa brugðist við.