Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vetnisframleiðsla gæti orðið stór útflutningsgrein

02.02.2021 - 10:00
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Landsvirkjun telur að framleiðsla vetnis gæti orðið risastórt tækifæri til að byggja upp nýja útflutningsgrein. Stefnt er að því að bensín og olía heyri sögunni til fyrir árið 2050. Vetnisvæðing stórra bíla, skipa og flugvéla gæti leikið stórt hlutverk í orkuskiptunum. Því er spáð að eftirspurn eftir vetni eigi eftir aukast mikið á næstu árum og áratugum.

50 milljarðar í jarðefnaeldsneyti

Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, flutti erindi á fundi Landsvirkjunar í síðustu viku sem fjallaði um ný og græn orkutækifæri. Erindi Haraldar bar yfirskriftina Ekkert bensín, engin olía. Hann fjallaði um þá möguleika sem felast í vetnisframleiðslu í tengslum við orkuskiptin. Markmið Íslands er að notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt hér á landi eigi síðar en árið 2050 eða eftir tæp 30 ár. Haraldur benti á að árinu 2018 hefðu verið flutt hingað til lands vegna innanlandssamgangna 680 þúsund tonn af fljótandi jarðefnaeldsneyti. Það losar sem svara 1,7 milljónum af koldíoxíði og fyrir þetta greiddum við um 50 milljarða króna. Ef fluginu er bætt við rúmlega tvöfaldast notkun olíu og bensíns.

Gæti verið risastórt tækifæri

Haraldur telur að það sé hægt að losna við þennan kostnað og hætta innflutningi á jarðefnaeldsneyti þegar fram líða stundir. Augunum sé nú beint að vetni sem orkugjafa. Ísland sé í góðri stöðu að gera sig gildandi á þeim markaði. Hann gengur svo langt að segja að framleiðsla vetnis gæti verið risastórt tækifæri fyrir Ísland til að byggja upp nýja útflutningsgrein - en er það raunhæft?

„Já, við teljum að það gæti verið. Það er engin vissa í þessu en það er alveg ljóst að það eru ekki bara Íslendingar sem eru að skoða það að fara í orkuskipti. Það eru allar þjóðir í heiminum og sérstaklega í Evrópu. Einhvers staðar verður að framleiða þessa endurnýjanlegu orku og einhvers staðar verður að framleiða þetta vetni sem við erum að tala um. Það er að sama skapi ljóst að það er ekki raunhæft að þetta sé allt framleitt til dæmis á meginlandi Evrópu miðað við spá um eftirspurn. Þá gæti verið tækifæri fyrir þjóð eins og Íslendinga sem á þessar frábæru endurnýjanlegu orkuauðlindir að framleiða vetni og flytja hreinlega til Evrópu. Þessi markaður er ekki til í dag en hann verður það vonandi,“ segir Haraldur Hallgrímsson.

Það átti á sínum tíma að vetnisvæða Ísland upp úr síðustu aldamótum. Ekkert varð af því. Nú er kannski komið að því að landið verði vetnisvætt. Þegar kemur að orkuskiptunum er vetnið talið raunhæft fyrir stóra bíla, fiskiskip, flutningaskip og flugvélar.

„Í stærri farartækjum teljum við að vetni og afleiddar vörur eins og ammoníak geti verið lausnin. Við erum að sjá mjög hröð orkuskipti í einkabílum. Fyrir stærri ökutæki gæti vetnið hentað mjög vel. Þá erum við fyrst að hugsa stærri ökutæki í vegasamgöngum t.d. flutningabíla, rútur og strætisvagna. Síðar skip í sjávarútvegi og millilandasiglingum. Og kannski lengra inn í framtíðinni jafnvel flugsamgöngur.“

Eftirspurn mun aukast umtalsvert

Haraldur segir að eftirspurn eftir vetni eigi eftir aukast mikið á næstu árum. Nú nemi hún á heimsvísu um 8 milljónum tonna ári. Spár geri ráð fyrir að 2050 verði spurn eftir vetni um 20 milljónir tonna í Norðvestur-Evrópu einni. Hann segir að ástæðan fyrir aukinni eftirspurn séu orkuskiptin.

„Við erum að sjá það að þjóðir sem eru mjög háðar jarðefnaeldsneyti og leggja jafnframt áherslu á að losa sig við það. Þar mun eftirspurnin vaxa hraðast. Það eru fyrirtæki sem starfa í þeim löndum sem eru að hafa samband við Íslendinga og vilja samstarf.“

Framtíðarsýnin er að rafvæða og vetnisvæða landið. Vetni er í raun ein birtingarmynd af rafmagni. Það er bæði hægt að nýta hreint vetni sem orkugjafa og líka hægt að umbreyta því í ammoníak, en innviðirnir þurfa að vera í lagi. Haraldur segir að dreifing og framleiðsla vetnis sé að verða samkeppnishæf. Hann bendir á að tæknin við dreifinguna og framleiðsluna sé í raun komin lengra en framleiðsla farartækjanna. Hann segir að ef farið verði út í umfangsmikla vetnisframleiðslu kalli það á endurnýjanlega orku í umtalsverðum mæli. En hvaðan á hún að koma? Haraldur segir að það sé ekki hans að svara nákvæmlega hvaðan sú orka eigi að koma, hvort hún eigi að koma úr nýrri vinnslu eða úr núverandi kerfi.

„En það er alveg ljóst að við Íslendingar flytjum gríðarlega mikið inn af fljótandi jarðefnaeldsneyti. Ef við ætlum að skipta því út fyrir endurnýjanlega orku þá verður sú orka að koma einhvers staðar frá. Hún getur t.d. komið frá vatnsaflsvirkjunum, jarðvarmavirkjunum en einnig erum við eins og aðrir að fylgjast með því sem er að gerast í kringum okkur varðandi virkjun vindsins. Það þekkja það allir Íslendingar að við eru rík af þeirri auðlind,“ segir Haraldur.