Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Þetta var engin smá vinna, bara bleyjuþvotturinn”

Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV

„Þetta var engin smá vinna, bara bleyjuþvotturinn”

02.02.2021 - 07:44

Höfundar

Helgi Björnsson hlaut nýlega Krókinn, árlega viðurkenningu Rásar 2 fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á árinu. Helgi hefur fengist við margt í gegnum tíðina og eitt það eftirminnilegasta er rekstur á einu sögufrægasta menningarhúsi Þjóðverja.

Helgi ólst upp á Ísafirði og segir það hafa verið draumi líkast enda fylgdi því mikið frelsi. Þar brallaði vinahópurinn ýmislegt og nýtti frelsið til hins ítrasta. Hvort sem það var að róa árabátum langt út á fjörð, leika sér á bryggjunni eða stríða bökurunum með því að kasta snjóboltum inn um opnar rúður hjá þeim. Bakaranir náðu þó að hefna sín á Helga og félögum þegar þeir buðu þeim ókeypis berlínarbollur á bolludaginn. „Við fengum berlínarbollu, brúna með sultu í miðjunni og sykur að utan. Þetta var algjört hnossgæti. Svo bitum við í bolluna og þá voru þeir svoleiðis búnir að troðfylla hana af sultu að um leið og maður beit í sprakk öll sultan yfir okkur,” segir Helgi. 

Leikfélagið á Ísafirði sá fljótt eitthvað í Helga en hann var ekki nema um það bil átta ára þegar hann var farinn að koma fram á barnaskemmtunum með leikfélaginu, enda átti hann aldrei í vandræðum með að standa á sviði fyrir framan fjölda manns. Einn kennari Helga var driffjöður hjá leikhópnum og nýtti hún ávallt frjálsa tímann í stundatöflunni til að fara með börnunum í spunaleik. „Það var frábært og kveikti í manni. Svo var ég farinn að leika í alvöru leikritum bara 13-14 ára,” segir Helgi sem ræddi við Hrafnhildi Halldórsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2. 

Á Ísafirði kynntist Helgi eiginkonu sinni, Vilborgu Halldórsdóttur, en hún kom til Ísafjarðar sem barnakennari. Þau fóru saman til Reykjavíkur þar sem þau skráðu sig í Leiklistarskólann. Rúmlega 100 manns sóttu um en aðeins átta komust að, þar á meðal þau hjónin. Helgi segir árin í Leiklistarskólanum hafa verið skemmtileg en jafnframt erfið. „Þau voru mjög skemmtileg. Að fást við það sem maður var búinn að dreyma um að gera. Þetta var erfitt líka. Við vorum með nýfæddan son, ég og Vilborg. Hann var sex mánaða þegar við byrjuðum í skólanum þannig að það var mjög erfitt. Á þessum tíma var enginn skilningur á því og enginn afsláttur gefinn,” segir Helgi.

Ekkert tillit tekið vegna barneigna

Staðan á þessum árum var ekki eins og hún er í dag og samfélagið tók ekkert tillit til aðstæðna. Helgi segir þau Vilborgu hafa fengið skýr skilaboð að barneignir þeirra myndu ekki hafa nein áhrif á skólann, skólavistina og aðra í bekknum. „Það var ekkert tillit tekið til okkar, ekki neitt,” segir Helgi.

Þau reiddu sig á mikla hjálp frá ættingjum. Foreldrar Vilborgar hjálpuðu mikið og fyrir stórar frumsýningar fór yngsti sonur þeirra til foreldra Helga á Ísafirði. 

Námið var ekki það eina sem reyndist erfitt fyrir ungu foreldrana. Þarna bjuggu þau á þriðju hæð í fjölbýlishúsi og þvottahúsið var niðri í kjallara. Einnota bleyjur þekktust varla og flestir notuðu því taubleyjur. „Maður þurfti fyrst að taka kúkableyjurnar og setja í fötu til að kæla. Svo hristi maður kúkinn úr og skolaði. Svo fór maður með þetta út í kjallara og þvoði. Svo var þetta tekið út, undið og hengt upp. Svo þurfti maður að fara niður og sækja, brjóta saman og svona. Þetta var enginn smá vinna, bara bleyjuþvotturinn,” segir Helgi. 

Þau útskrifuðust bæði úr Leiklistarskólanum árið 1983 og Helgi fékk strax hlutverk í Atómstöðinni. Svo miklar vonir voru bundnar við myndina að hún var tekin upp á bæði ensku og íslensku. Helgi er þó ekki viss um að myndin hafi nokkurn tímann verið klippt á ensku. Eftir útskriftina úr skólanum fékk Helgi einnig örlagaríkt símtal frá Rafni Jónssyni sem spurði hvort það mætti ekki sannfæra Helga um að ganga til liðs við nýja hljómsveit sem hét Grafík. „Þetta lagði grunninn af því sem seinna kom, ég var alltaf á milli leiklistar- og hljómsveitarlífs,” segir Helgi. Grafík sló auðvitað í gegn og fyrsta plata hljómsveitarinnar, Get ég tekið sjéns, kom út 1984, einu ári eftir að Rás 2 fór í loftið og fjölmörg lög af plötunni slógu í gegn. Við tóku ár þar sem brjálað var að gera hjá Grafík við að spila allar helgar. 

París norðursins í uppáhaldi

Þrátt fyrir vinsældir hljómsveitarinnar hélt Helgi áfram að leika í kvikmyndum og hefur hann sérstakt dálæti á því að leika skúrk í myndunum. Uppáhaldshlutverkið er þó í myndinni París norðursins. Þar leikur Helgi drykkfelldan mann sem heimsækir son sinn í afskekkt þorp á Vestfjörðum með spaugilegum afleiðingum. 

Fjölskyldan hefur einnig tvisvar sinnum lagt land undir fót og flutt til útlanda. Fyrst til Ítalíu þar sem Vilborg fór í nám. „Ég var bara húsmaður. Keyra og sækja í skólann, undirbúa máltíðir og svo var ég að semja. Samdi eina plötu,” segir Helgi um tímann á Ítalíu. Hann tók svo við rekstri á stóru leikhúsi í Berlín og bjó þá einn í stórborginni þar sem þau vildu ekki rífa dóttur sína úr námi á Íslandi.  

Fyrrum leikhús Hitlers

Leikhúsið sem Helgi rak í Berlín var ekki af verri endanum. Húsið er sögufrægt og var byggt árið 1911. Í upphafi hýsti það skautasvell og böð. Eftir fyrra stríð var því breytt í kabarett-leikhús og varð það frægasta af sinni tegund á millistríðsárunum. Skömmu fyrir síðari heimsstyrjöldina varð leikhúsið eitt af nokkrum leikhúsum Hitlers og eftir að stríðinu lauk var kommúnistaflokkur Austur-Þýskalands stofnaður á stóra sviði hússins. Síðar varð þetta helsta óperettuleikhúsið í Austur-Berlín. „Þegar við komum þarna er nýbúið að forða því frá niðurrifi. Þegar Austur- og Vestur-Berlín sameinast dagar þetta uppi. Þá er enginn markaður fyrir óperettur. Á endanum ákveða borgaryfirvöld að rífa það og byggja eitthvað nýtt. Þá fara fjölmiðlar og fólkið af stað að mótmæla þessu og bjarga leikhúsinu. Það endar með útboði og menn bjóða hvernig þeir vilja endurreisa leikhúsið. Við vorum munstraðir í þessa áhöfn, þetta voru þrír Þjóðverjar ásamt okkur. Okkar tillaga var valinn og við förum í að fjármagna endurbyggingu á húsinu,” segir Helgi. 

Mikið var lagt í enduruppbyggingu hússins og Helgi segir málið hafa vakið athygli í Þýskalandi og þá sérstaklega í Berlín þar sem íbúar þekktu sögu hússins. „Svo vorum við bara með borgarstjórann í stúkunni,” segir Helgi um opnun leikhússins. Heilmikill rekstur var í húsinu. Þar mátti finna tvo 400 sæta sali, einn 1800 sæta sal, einn 200 sæta sal auk þess sem þeir ráku tvær skrifstofuhæðir og klúbb í kjallaranum. „Þetta er mikil sköpun. Mikið stress líka. Þetta var alltaf í járnum, hvort þetta færi hérna megin eða hinum megin. Maður nagaði handarbökin oft á tíðum,” segir Helgi.

Rann blóðið til skyldunar að sameina þjóðina

Í fyrra nutu fáir sjónvarpsþættir viðlíka vinsælda og Heima með Helga sem hófst um það leyti sem kórónuveirufaraldurinn braust út hér á landi. Helgi fékk sjálfur hugmyndina að þáttunum eftir að hafa fylgst með hvernig vinir hans á Ítalíu brugðust við faraldrinum þar í landi. „Þau fóru út á svalir að syngja og fóru fljótlega að búa til Facebook-samkomur og voru saman að syngja. Þetta kveikti í mér, maður fann að þetta var að koma hingað, var að bresta á og mér fannst við þurfa að gera eitthvað líka, rann blóðið til skyldunnar,” segir Helgi.

Upphaflega voru þetta aðeins einir tónleikar sem Helgi ætlaði að senda út á Facebook. Hann hugsaði svo með sér að þetta ætti vel heima í sjónvarpi og setti sig í samband við Pálma Guðmundsson hjá Símanum. Honum leist vel á hugmyndina en bað um að fá að hugsa málið, enda rímaði þessi línulega útsending ekki alveg við strauma og stefnur sjónvarpsstöðvarinnar. Þremur dögum áður en fyrstu tónleikarnir fóru í loftið hafði Pálmi aftur samband við Helga og sagði að Síminn vildi gjarnan vera með. Áfram var planið þó að hafa þetta bara eina staka tónleika, en þar sem fyrstu tónleikarnir gengu svo vel var ákveðið að hafa aðra viku síðar og svo koll af kolli. 

Fólk var þakklátt fyrir þættina og Helgi segir þetta hafa verið ólíkt því sem hann hafði upplifað áður. „Þetta er engu líkt að því leytinu til að aðstæðurnar eru auðvitað þannig að fólk er lokað heima hjá sér og vantar eitthvað sálarupplífgandi og hvað er þá betra en okkar tónlistararfur. Lögin sem við eigum öll saman og tengjum við. Tengjum alls konar góðar tilfinningar við. Það er lykillinn að þessu í mínum huga, það er ekki bara að það er verið að syngja saman. Það eru þessi lög sem við eigum saman, tónlistararfurinn okkar. Við höfum verið að kafa ofan í hann og draga upp alls konar lög. Ég held að fólki finnist þetta gott. Þetta hlýjar í hjartanu, maður finnur það bara sjálfur,” segir Helgi.

Núna eru mörg járn í eldinum hjá honum. Heima með Helga heldur áfram á laugardagskvöldum fram að páskum og svo er hann tekinn við rekstrinum á Hótel Borg og undirbýr núna opnun á nýjum dansstað í Gyllta salnum. „Færa Gyllta salinn aftur til vegs og virðingar,” segir Helgi. 

Helga er fyrst og fremst þakklæti í huga þegar hann horfir til baka yfir ferilinn og hann segir nauðsynlegt að vera með auðmýkt í því starfi sem hann gegnir. „Ef maður ætlar að fara í gegnum feril þar sem er mikil athygli á manni, þá er lykilatriðið, það er auðmýktin. Maður verður að hafa hana alltaf nálægt sér. Henni fylgir þakklæti. Þakklæti fyrir þá gjöf að geta gefið. Það hef ég alltaf verið meðvitaður um. Sú gjöf er ekkert sjálfsögð og fyrir hana hef ég alltaf þakkað,” segir Helgi.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Helga Björnsson í heild sinni hér. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Helgi Björnsson fær Krókinn 2020

Tónlist

Helgi Björns ber sig vel þrátt fyrir aflýsingu í kvöld