Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hæstiréttur tekur mildaðan dóm Landsréttar fyrir

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir - rúv
Hæstiréttur hefur fallist á að taka fyrir nauðgunarmál tveggja manna gegn unglingsstúlku. Landréttur mildaði dóm Hérðaðsdóms Reykjavíkur í desember í fyrra en saksóknari skaut málinu til Hæstaréttar sem samþykkti beiðnina í dag.

Vísir greinir fyrst frá. Tveir menn,  Lukasz Soliwoda og Tomasz Walkowski, voru í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdir árið 2019 í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað sextán ára gamalli stelpu árið 2017. Jafnframt var þeim gert að greiða henni 1,3 milljón króna í miskabætur. 

Samkvæmt lögregluskýrslu kvaðst stelpan hafa kynnst 18 ára pólskum pilti og farið í bíl með honum og þau endað í fjölbýlishúsi. Þar hefði henni verið nauðgað af þessum pilti og tveimur fullorðnum, pólskum karlmönnum. Stelpan fullyrti að fyrst hefði annar eldri karlmannanna haft við sig samfarir og síðan hinn, en pilturinn hefði neytt sig til munnmaka.

Mennirnir voru ákærðir fyrir að beita stúlkuna ólögmæta nauðung með þvi að notfæra sér ölvunarástand hennar og yfirburðastöðu sína, þar sem stúlkan var stödd með þeim þremur ókunnugum mönnum fjarri öðrum, auk þess sem ákærðu Lukasz og Tomasz nýttu sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni sökum aldurs- og þroskamunar.

Þegar stúlkan bar vitni fyrir dómi kvaðst hún ekki muna eftir munnmökunum og var pilturinn sýknaður af ákærunni.

Landsréttur mildaði dóm mannanna í desember um eitt ár úr þremur árum í tvö en miskabæturnar hækkaðar örlítið frá því sem dæmt var í héraði.  Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess dráttar sem hafði orðið á meðferð málsins hjá ákæruvaldinu.

„Ákæruvaldið telur að refsing gagnaðila hafi verið ákveðin til muna of væg. Það hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um það hver sé hæfileg refsing í nauðgunarmálum og hvaða áhrif dráttur á málsmeðferð eigi að hafa á ákvörðun refsingar í slíkum málum. Auk þess telur ákæruvaldið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni hvað varðar ákvörðun refsingar,“ segir í málskotsbeiðninni. Hinir ákærðu lögðust gegn því að beiðnin yrði samþykkt.

Hæstiréttur féllst á að taka málið fyrir á þeim rökum að „mikilvægt sé að fá  úrlausn réttarins um ákvörðun viðurlaga í því.  Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar gagnaðila, vitna og brotaþola, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti,“ segir í úrskurði Hæstaréttar.