Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fékk ekki vinnu við hæfi og stofnaði því fyrirtæki

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Hópur kvenna af erlendum uppruna heldur námskeið fyrir íslenska atvinnurekendur um mismunun og hvernig megi draga úr henni. Einn af stofnundum fyrirtækisins Geko, sem stendur að fræðslunni, hafði leitað sér að vinnu hér á landi en fékk ekki vinnu þar sem hún gat nýtt 20 ára reynslu sína af mannauðsmálum. Hún ákvað því að stofna fyrirtæki.

Þær Kathryn, Unnur, Anna og Anna hafa í nógu að snúast þó svo að fyrirtækið Geko, sem þær starfa hjá, sé ekki gamalt. 

„Ég flutti hingað fyrir tæpum fimm árum, árið 2016, og hef tuttugu ára reynslu
af mannauðsmálum,“ segir Kathryn Gunnarsson, stofnandi Geko.

Kathryn sem er frá Bretlandi útbjó vandaða ferilskrá og reyndi að fá atvinnuviðtöl.

„Það var virkilega erfitt. Íslendingar eru frábært fólk og ég kann afar vel við mig hér en að berja svona að dyrum og standa í þessu öllu krefst mikillar orku og hugrekkis. Maður þarf að yfirstíga óttann og halda áfram að knýja dyra, en það geta ekki allir,“ segir Kathryn.

Kathryn áttaði sig á að ferilskrá ein og sér er ekki nóg. 

„Það verður að fylgja henni tengslanet og samband, sérstaklega á þessum tímum þegar við hittum svona fáa. Við verðum að finna nýjar leiðir til að tengjast og ná sambandi,“ segir Kathryn.

Og fyrirtækið sem Kathryn stofnaði ásamt tveimur öðrum aðstoðar fólk sem hefur sérfræðimenntun á sviði nýsköpunar að fá vinnu. Geko fræðir líka atvinnurekendur um mismunun þegar kemur að fólki af erlendum uppruna.

„Áður en við byrjum þetta námskeið um fordóma förum við yfir nokkur hugtök. Það er afar mikilvægt að við skiljum þessi þrjú hugtök, jafnrétti, fjölbreytni og þátttöku allra hópa. Við þurfum að bera þau upp áður en við tölum um slagsíðu. Jafnrétti þýðir að allir eru jafnir, sérstaklega hvað varðar stöðu, rétt og tækifæri,“ segir Unnur María Birgisdóttir, framkvæmdastjóri í mannauðsráðgjöf, á vinnusmiðju fyrir atvinnurekendur.

Og það er íslenskum fyrirtækjum til ábata að losna við ómeðvitaða útlendingafordóma.

„Ég held að það hjálpi þeim að vaxa sem fyrirtæki, sérstaklega í tækniheiminum. Það er ekkert leyndarmál að okkur vantar hæfileikafólk á því sviði,“ segir Anna Pavlova, frá Lettlandi. Hún er verkefnastjóri hjá Geko.

„Við höfum öll ómeðvitaða fordóma, jafnvel gegn fólki sem lítur út eins og við
eða hefur sömu menntun. Það eru margir mjög hæfir útlendingar úti í samfélaginu en þeir fá ekki tækifæri því þeir eru ósýnilegir,“ segir Kathryn.

Kathryn segir áhugann ekki skorta hjá íslenskum fyrirtækjum á að verða fordómalausari.