Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Brottflutningssaga í pólitík og ballöðum

02.02.2021 - 17:00
Sekkjarpípusveit í skrúðgöngu á degi heilags Patreks í New York. - Mynd: EPA / EPA
Það eru áhugaverðar hliðstæður í íslenskri og írskri brottflutningssögu. Írska sagan er mun sárari og bitrari en sú íslenska. Írar eru jafnframt mjög meðvitaðir um þessa sögu sína og þá einnig um írsku díaspóruna um allan heim. Hver áhrifin af Covid verða á brottflutning á eftir að koma í ljós.

Patreksdagurinn um allan heim

Meðvitundin um útflytjendasöguna er sterk á Írlandi og mótar mjög þjóðarvitund Íra. Dagur heilags Patreks, þjóðardýrlings Íra, er hátíðisdagur þeirra um allan heim, líka í Bandaríkjunum. Þann dag er írski forsætisráðherrann gjarnan gestur í Hvíta húsinu. 

Auma úrhrakið sem varð Bandaríkjamenn

Þannig var það líka á Patreksdeginum í mars 2017 þegar þáverandi forsætisráðherra Enda Kenny var gestur nýs Bandaríkjaforseta, Donald Trumps. Í sama dúr og írskir leiðtogar gera gjarnan á þessum degi, rifjaði Kenny upp hvernig Írar hefðu flúið örbyrgð heima fyrir, oft hungur og dauða og Bandaríkin þá land tækifæranna sem gáfust ekki heima. 

,,Við vorum hið auma úrhrak á iðandi ströndinni,“ sagði Kenny, tilvitnun í frægt bandarískt ljóð frá 19. öld eftir Emmu Lazarus. Írar hefðu trúað á skjól í Bandaríkjunum, á samúðina og tækifærin þar. „Við komum og urðum Bandaríkjamenn,“ sagði Kenny. 

Brottflutningur, atvinnuleysi og námsþorsti

Af því að í írsku brottflutningssögunni fléttast saman hörmungar og dauði hefur sagan verið þjóðarmartröð, andstætt íslenskri brottflutningssögu. En í báðum löndum hefur brottflutningur á síðari áratugum sprottið af atvinnuleysi. Íslenska viðbótin er svo þessi sterka hefð fyrir að sækja sér menntun erlendis, sem á sér ekki sömu hliðstæðu á Írlandi. 

Besta útflutningsvara Íra: ungir Írar

Af alkunnri kaldhæðni bendar Írar gjarnan á að besta útflutningsvara þeirra sé ungt fólk. Á árunum eftir bankakreppuna 2008 til 2014 fluttu 400 þúsund manns frá Írlandi. Mikil blóðtaka fyrir þjóð sem telur aðeins 4,5 milljónir. En það sem gerðist þegar Írar fóru að rétta úr kútnum var það sama og var að gerast á sama tíma á Íslandi: fólk hélt áfram að flytja þó það væri nægu vinnu að hafa heima við. Í þetta skipti voru það ekki auma úrhrakið, sem Kenny talaði um, heldur vel menntað fólk, eins og arkitektar, hönnuðir, verkfræðingar eða iðnaðarmenn.

Handbærar tölur um menntun þeirra sem flytja til og frá landinu væntanlegar

Hagstofa Íslands mun væntanlega á næstu mánuðum hafa handbærar tölur um menntun þeirra sem flytja til og frá landinu. Þangað til er aðeins hægt að sjá að útlendingar sem flytja til Íslands fara lang flestir í láglaunastörf. Ekki endalega af því þeir hafi ekki menntun, vitað mál að það getur verið erfitt fyrir innflytjendur að fá menntun og reynslu metna í nýja landinu. 

Írum og Íslendingum fjölgar af því útlendingar flytja þangað

Írum og Íslendingum fjölgar jafnt og þétt, af því bæði löndin eru aðlaðandi fyrir erlent vinnuafl. Flest árin flytjast fleiri útlendingar til landanna tveggja en brottfluttir heimamenn. Hið sérstaka er þó að hingað til hafa um sjötíu prósent brottfluttra Íslendinga snúið aftur heim til Íslands innan átta ára.

Nú er það ævintýraþrá frekar en atvinnuhorfur sem lokka fólk á brott

En hvað er það þá sem fólk sækist eftir erlendis, annað en atvinna? Í viðtölum sem fréttamiðillinn Stundin tók 2018 við brottflutta Íslendinga á Norðurlöndum var það ekki fyrst og fremst vinna sem lokkaði, heldur betri laun, ódýrari matur og ýmiss konar þjónusta og lífshættir almennt. Um þriðjungur brottfluttra hefur oftast verið á aldrinum 20 til 29 ára.

Írar syngja um sína brottflutningssögu

Sterk meðvitund Íra um brottflutning birtist meðal annars í tónlistinni, gamlar og nýjar ballöður um brottflutninginn og hjartasárin. Nei, það tekst ekki öllum að hreppa tækifærin í nýja staðnum, þar geta draumarnir líka dáið, eins og The Pogues sungu um 1987 í laginu Æfintýrið um New York.

Írskur brottflutningur er pólitískt efni sem er reglulega rætt

Írsk meðvitund um brottflutning skilar sér einnig í stjórnmálaumræðunni. Iðulega rætt fyrir kosningar hvernig væri hægt að fá brottflutta Íra til að snúa heim, nú síðast í fyrra. Írska stjórnin gerði til dæmis átak 2015 í þessa veruna. Dagblaðið ,,Irish Times“ er með sérstakan vef með fræðandi efni um allt frá sköttum og félagslegri þjónustu til tilfinningalífsins. 

Sterk írsk vitund um díasporuna sína

Það er líka sterk vitund á Írlandi um díasporuna, um alla þessa Íra sem búa erlendis og að það geti verið kostur að hafa aðgang að reynslu þeirra og þekkingu. Iðulega leitað til þeirra, þeim boðið heim að halda fyrirlestra, almennt vitund um að erlendis séu landar, sem hægt sé að leita ráða eða álits hjá. Lítil vitund um það sama á Íslandi og þó búa tæplega fimmtíu þúsund Íslendingar erlendis. 

Hvernig Covid faraldurinn og brottflutningssagan mun fléttast saman á eftir að koma í ljós, önnur saga í annan tíma.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir