Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

90 ára og eldri boðið í bólusetningu

02.02.2021 - 17:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi - RÚV
Einn greindist með COVID-19 í gær. Hann var ekki í sóttkví. Þetta er fyrsta smitið í tólf daga sem greinist utan sóttkvíar. Eitt smit greindist á landamærunum. Öllum sem eru 90 ára og eldri og búa á höfuðborgar-svæðinu var boðið í bólusetningu í dag.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins býður öllum sem eru fæddir árið 1931 eða fyrr í bólusetningu í dag. Um það bil þúsund manns fengu SMS-skilaboð um það í síma. Flest fólk á þessum aldri á hjúkrunarheimilum hefur nú þegar verið bólusett.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á heilsugæslunni, segir að þeir sem komust alls ekki í dag geti komið síðar. „Fólk þarf ekki að örvænta, það er ekki búið að missa plássið sitt. Þegar maður er einu sinni búinn að fá boð í bólusetningu, þá á maður rétt á bólusetningu,“ segir hún.

Bólusetningin fer fram á Suðurlandsbraut 34 í Reykjavík. Allir verða að vera með grímu og skilríki. Bólusett er í axlarvöðva. „Þetta er allt á Suðurlandsbraut, þar erum við að blanda og þar erum við búin að koma okkur upp mjög góðu húsnæði með fullt af rýmum og fullt af stólum. Fólk kemur inn og er stýrt í ákveðin herbergi þar sem það fær sér sæti og bíður í 15 mínútur eftir að það er búið að fá sprautuna,“ segir Ragnheiður Ósk.