Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Síminn varð fyrir netárás á laugadagskvöld

01.02.2021 - 13:38
epa07294580 (FILE) - ILLUSTRATION - A person sits in front of a computer screen in Moers, Germany, 04 January 2019 (reissued 19 Jauary 2019). Media reports on 17 January 2019 state that a record with numerous stolen user data has been published on the Internet. The collection named Collection #1 contained almost 773 million different email addresses, more than 21 million different passwords and more than a billion combinations of credentials, according to a Australian IT security expert. Internet users shall be affected worldwide.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
 Mynd: EPA
Þeir sem ætluðu sér að horfa á áskriftarrásir eða panta sér efni af sjónvarpsleigunni á laugardagskvöldið kunna að hafa gripið í tómt, því Síminn varð fyrir netárás.

Árásin var svokölluð dreifð álagsárás (DDos) en með þeirri aðferð geta tölvuþrjótar beint svo miklu álagi á vefþjónustu annarra að þjónustan nær ekki anna eftirspurn raunverulegra viðskiptavina.

Engar truflanir urðu á hefðbundinni fjarskiptaþjónustu en sjónvarpsþjónusta Símans varð fyrir truflunum í á aðra klukkustund. Það tók töluverðan tíma fyrir tæknifólk Símans að ná utan um árásina vegna þess hversu dreifð hún var.

Árásin hefur verið tilkynnt til CERT-ÍS, netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar, sem fer með rannsókn á netárásum. Þrjótarnir komust ekki yfir nein gögn og komust ekki inn fyrir varnir Símans.

Allri umferðinni beint í svarthol

Guðmundur Jóhannsson, samskiptastjóri Símans, segir eftirlitskerfi fyrirtækisins hafa gert tækifólki viðvart sem gat þá hafist handa ásamt samstarfsaðilum að minnka áhrif árásarinnar.

„Okkar aðgerð er þá að færa alla umferð sem kemur svona óvænt inn í svona miklu magni í svarthol þannig að hún hverfi og komi ekki yfir sæstrengina til Íslands og valdi frekari truflunum, sem heppnaðist,“ segir Guðmundur í samtali við fréttastofu RÚV.

„Sjónvarp Símans fór ekki niður en þegar skipt var yfir á læsta áskriftarrás eða reynt að panta efni kom upp villa,“ segir hann enn fremur.

Síminn mun í framhaldinu efla sjálfvirku eftirlitskerfin, yfirfara ytra netlag og tryggja að flest kerfi séu varin og í öruggu skjóli frá netárásum sem þessum.

Umferðarteppa

Hægt er að lýsa álagsárás sem umferðarteppu á vefþjónunum. Tölvuþrjótarnir hafa sýkt nettengdar tölvur og tæki um allan heim og beina öllum þessum tölvum fyrirvaralaust á einn stað. Allar brautir, sem yfirleitt eru greiðar viðskiptavinum, eru þá tepptar, umferðin færist hægt eða stendur í stað.

Með öðrum orðum: Viðskiptavinurinn nær ekki að tengjast þjónustunni sem hann hefur keypt.

Erfitt er að kæfa fyrirvaralausar árásir sem þessar. Engar vísbendingar eru um að tölvuþrjótarnir hafi krafist að fá greitt fyrir að hætta árásinni. Slíkar árásir eru kallaðar lausnargjalds álagsárásir í beinni þýðingu (e. ransom DDos).