Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir Davíð Oddsson hafa fengið Jón Ásgeir á heilann

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einar Kárason, rithöfundur og höfundur Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, segir Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og Seðlabankastjóra og síðar ritstjóra Morgunblaðsins, hafa fengið Jón Ásgeir á heilann upp úr aldamótunum.

Einar var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun og segir Davíð hafi haldið viðureign sinni við Jón Ásgeir áfram í ritstjórastólnum, ásamt öllu sínu liði.

Ritstjórinn hafi skrifað allskonar neikvæða hluti um Jón Ásgeir og nítt niður af honum skóinn. Einar segir samskipti Davíðs og Jóns Ásgeir gegnum Baugsmálið, „bolludagsmálið“, Hrunið og eftirmála þess vera rauðan þráð í bókinni.

Vitnað sé í mörg skrifa Davíðs í bókinni og reynt að varpa öðru ljósi á þau og að þegar hafi komið ákveðin viðbrögð við bókinni sem viðbúið hafi verið en þeim sé ekki lokið. 

„Við eigum eftir að fá stóru sleggjuna í Mogganum. Hver sem skrifar hana,“ segir Einar, sem segir bókina ekki vera fræðirit heldur frekar sögu manns sem hefur lifað stór og mikil örlög. 

Þáttur Evu Joly

Auk Davíðs Oddsonar var minnst á þátt Evu Joly í bókinni, sem var meðal annars ráðgjafi sérstaks saksóknara í eftirmálum hrunsins. Einar segir margt hafa komið sér á óvart í því máli og að hann telji ekki að Eva fái verri útreið en maklegt er í bókinni.

Einar Kárason segir í samtali við fréttastofu að honum hafi einna mest komið sleggjudómar Evu Joly á óvart sem sagði strax eftir komuna til Íslands útrásárvíkingana íslensku vera alþjóðlega glæpamenn.  Þetta hafi meðal annars komið fram í viðtali við Egil Helgason í Silfrinu.

Einar segist hafa lesið önnur skrif, til að mynda bók Eggerts Skúlasonar, Andersen skjölin, þar sem hann hafi séð að eitthvað undarlegt var á ferðinni varðandi aðkomu Evu Joly að hrunmálum. 

Hún hafi ekki haft neitt fyrir sér varðandi athæfi íslenskra viðskiptamanna, ekki haft aðstöðu til að kynna sér málið og úrskurðað umsvifalaust að allir slíkir, þar á meðal Jón Ásgeir, ættu heima á bak við lás og slá. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV