Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lilja skorar á Disney að talsetja og texta efni sitt

01.02.2021 - 19:32
Mynd með færslu
 Mynd: samsett mynd - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sendi í dag erindi til kvikmyndaframleiðandans Disney og óskaði eftir því að bætt verði úr skorti á íslensku tali á efni streymisveitunnar Disney+. Efnisveitan bauð nýverið upp á áskriftir hér á landi og hafa margir gagnrýnt að ekki sé hægt að horfa á efni með íslensku tali né að efnið sé textað.

Í bréfi sínu til Bob Chapek, forstjóra Disney fagnar Lilja þeirri þjónustu sem Íslendingum stendur til boða í gegnum Disney+ enda hafi persónur Disney fest sig í sessi í hjörtum landsmanna í gegnum árin. Íslenska sé kjarni menningar hér á landi og þjóðareinkenni og því séu það vonbrigði að hvorki sé í boði að horfa á efni með íslensku tali né texta. 

„Það er óboðlegt að stórveldi eins og Disney nýti ekki íslenskar talsetningar og þýðingar á streymisveitunni Disney+. Í bréfi til forstjórans hvet ég fyrirtækið til að gera bragarbót á og bendi á þá staðreynd, að íslenska tungumálið er kjarninn í menningu þjóðarinnar og sjálfsmynd. Við leggjum hart að okkur við að viðhalda því, sérstaklega meðal barna og ungmenna sem daglega verða fyrir miklum áhrifum frá öðrum tungumálum, aðallega ensku. Góð móðurmálskunnátta er gríðarlega mikilvæg fyrir persónuþroska barna, sjálfsmynd þeirra, menntun og getu til að móta hugsanir. Hún er nauðsynleg íslenskri æsku og framtíð þeirra,“ segir á Facebook síðu Lilju.

Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari hefur lýst yfir vonbrigðum sínum með skort á talsettu efni á efnisveitunni Disney+.

„Hakuna Matata þýðir “engar áhyggjur”. Þetta vitum við af því Púmba sagði okkur það. En hann gerir það ekki lengur. Nú segir hann bara “It means no worries” eða “Det betyder ingen problemer”. Disney á gríðarlegt magn talsetninga á þessu 1200 ára gömlu tungumáli okkar, sem er eitt af elstu tungumálum heims sem enn er talað. Það hlýtur að skipta okkur máli að þetta sé gert aðgengilegt,“ segir Jóhannes á Facebook síðu sinni í morgun.