Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kærunefnd jafnréttismála verði einnig stefnt til varnar

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Til þess að fá úrskurði kærunefndar jafnréttismála hnekkt þarf nú ekki aðeins að höfða mál gegn umsækjanda um stöðu, heldur einnig kærunefndinni, samkvæmt nýjum lögum um stjórnsýslu jafnréttismála sem samþykkt voru á Alþingi 17. desember 2020, og tóku gildi 6. janúar.

Lögin breyttust eftir málsókn Lilju

Áður en lögin tóku gildi þurfti sá sem ekki vildi una úrskurði kærunefndarinnar að höfða mál á hendur umsækjandanum einum. Það gerði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þegar hún höfðaði mál á hendur Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu og umsækjanda um stöðu ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þá hafði kærunefnd jafnréttismála úrskurðað, í lok maí, að ráðherra hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Páls Magnússonar. Nefndin taldi Hafdísi Helgu ekki hafa notið sannmælis.

Greint var frá fyrirhugaðri málsók Lilju í lok júní og í byrjun júlí var birt á samráðsgátt stjórnvalda frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að lögum um stjórnsýslu jafnréttismála. Með lögunum, sem Alþingi samþykkti 17. desember og tóku gildi 6. janúar, voru gerðar þær breytingar að kærunefnd jafnréttismála yrði jafnframt stefnt til varnar þegar höfðað er mál til ógildingar úrskurða nefndarinnar fyrir dómstólum. 

„Ef úrskurður kærunefndar jafnréttismála er kæranda í hag en gagnaðili vill ekki una honum og höfðar mál til ógildingar úrskurðinum fyrir dómstólum skal kærunefnd jafnréttismála og kæranda stefnt til varnar. Kærandi skal fá greiddan málskostnað úr ríkissjóði fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti,“ segir í fimmtu málsgrein áttundu greinar laganna.

Nefndin sjái um að færa fram málsástæður

Í almennum athugasemdum við frumvarpið segir að rétt sé að kærunefnd jafnréttismála standi skil gerða sinna fyrir dómi. „Enginn þekkir betur á hvaða grunni úrskurður nefndarinnar er byggður en nefndin sjálf og því er rétt að hún sjái um að færa fram málsástæður og lagarök fyrir því af hverju úrskurðurinn sé löglegur og réttur en ekki kærandi einn eins og núverandi skipan mála er hagað.“  Þar segir einnig að sú skipan sem áður var í gildi hafi verið til þess fallin að fæla fólk frá því að bera mál sín undir kærunefnd jafnréttismála.