Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Herinn tekur völdin í Mjanmar

01.02.2021 - 02:38
epa08978912 Military trucks are seen inside Yangon City Hall, which is now under the control of the Myanmar military, in Yangon, Myanmar, 01 February 2021. According to media reports, the senior members of the National League for Democracy, including leader Aung San Suu Kyi, are being detained by the military due to a dispute rising from elections held in November 2020, the results of which have been challenged by the military-aligned opposition party. The move is believed to signal a coup d'etat by the military.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sjónvarpsstöð hersins í Mjanmar greindi frá því í nótt að herinn fari með völd í landinu næsta árið. Neyðarlög verða í gildi út þann tíma. Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmars, var tekin til fanga skömmu áður en yfirlýsingin var lesin upp. Auk hennar var forsetinn tekinn til fanga af hernum, auk fjölda hátt settra embættismanna úr stjórnarflokknum NLD.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Ástralíu hafa lýst áhyggjum sínum af gangi mála í Mjanmar. Valdarán hersins hefur verið yfirvofandi í nokkrar vikur, eða allt frá þingkosningum í nóvember á síðasta ári. Þar fór flokkur Suu Kyi, NLD, með stórsigur af hólmi, en herinn telur brögð í tafli. Samkvæmt stjórnarskrá Mjanmars fær herinn fjórðung þingsæta. 

Nauðsynlegt til að tryggja stöðugleika

Í yfirlýsingunni sem lesin var upp á sjónvarpsstöð hersins segir að valdaránið hafi verið nauðsynlegt til þess að tryggja stöðugleika í ríkinu. Vísaði þulur þar til meintra kosningasvika í nóvember. Kjörstjórn var jafnframt sökuð um að hafa ekki fylgst nógu vel með. Yfirlýsingin var undirrituð af Myint Swe, settum forseta, en hann var áður varaforseti. Löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald hefur svo verið fært í hendur hershöfðingjanum Min Aung Hlaing.

Bandaríkin hóta refsiaðgerðum

Jen Psaki, talskona Hvíta hússins í Bandaríkjunum, sagði Bandaríkjastjórn mótmæla öllum tilraunum til þess að breyta kosningaúrslitum eða stefna lýðræði Mjanmars í hættu. Gripið verði til aðgerða gegn þeim sem voru að verki. Herinn og aðrir sem standa að valdaráninu eru beðnir um að hlíta lýðræðislegum reglum og landslögum, og leysa þá sem teknir voru til fanga tafarlaust úr haldi.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem hann fordæmir aðgerðir hersins. Stephane Dujarric, talsmaður hans, segir Guterres fordæma handtökurnar á þeim Suu Kyi og forsetanum Win Myint auk annarra embættismanna. Aðgerðirnar segir Guterres vera svartan blett á lýðræðisumbætur í Mjanmar.

Fjarskiptasamband hefur legið niðri í nokkrar klukkustundir í landinu. Ríkissjónvarpið og -útvarpið í Mjanmar greindi frá því á Facebooksíðu sinni að það gæti ekki sent út sem stendur. Í morgun barst tilkynning frá samtökum fjármálastofnana í landinu að bankar verði lokaðir í dag vegna slæms netsambands.

NLD flokkurinn birti tilkynningu á Facebooksíðu Suu Kyi þar sem stuðningsmenn eru beðnir um að mótmæla valdaráninu.

Posted by Chair NLD on Sunnudagur, 31. janúar 2021

Herstjórn var í Mjanmar, sem áður hét Búrma, í um hálfa öld. Árið 2008 var byrjað að leggja línurnar fyrir lýðræði í landinu, og voru kosningarnar í nóvember aðeins aðrar í röðinni frá því lýðræðið tók við.