Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Geitur japla á jólatrjám

01.02.2021 - 10:41
Mynd: Karl Sigryggsson / RÚv/Landinn
Í huga flestra eru jólin búin á þrettándanum. Þá eru jólin hinsvegar að byrja hjá geitunum á Háafelli í Hvítársíðu. Jóhanna B. Þorvaldsdóttir, geitabóndi og eigandi Geitfjársetursins, fer þá um héraðið og safnar saman jólatrjám sem sveitungarnir þurfa að losna við. Þessi tré fara síðan í geitarhúsin þar sem þeim er tekið fagnandi.

Landinn kíkti við á Háafelli þar sem jólatré voru á boðstólnum. 

Hrifnar af furunni

„Geiturnar éta þetta með bestu lyst. Þær þurfa tréni sem þær fá ekki úr heyi eða grasi. Geitur geta unnið á þyrnirunnum og allskonar rótum en hérna eru þær fóðraðar á heyi eða grasi þannig að jólatrén eru kærkomin bætiefni fyrir þær,“ segir Jóhanna. Hún segir að geiturnar séu hrifnari af furunni en þær fúlsi alls ekki við greninu.

Geiturnar laða til sín fjölda gesta

Á Háafelli eru um tvö hundruð geitur á húsi í vetur sem laða til sín fjölda gesta allt árið um kring. Síðasta sumar komu yfir hundrað gestir á dag í Geitfjársetrið og þar eru í boði ýmsar afurðir úr geitakjöti og geitamjólk.

 

gislie's picture
Gísli Einarsson