Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bolli biður borgarstjóra afsökunar á rangfærslu

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Bolli Kristinsson, kaupmaður sem oft er kenndur við 17, hefur beðist afsökunar á rangfærslu í myndbandi sem Bolli gerði ásamt fleirum, og fjallar um framkvæmdir á Óðinstorgi og heimili Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Bolli hefur óskað eftir því að myndbandið verði fjarlægt.

Í stöðuuppfærslu sem Bolli setti inn á Facebook í gærkvöldi segir að aðgerðahópurinn Opnum Laugaveg og Skólavörðustíg hafi gert mistök við gerð myndbandsins. Flest sé rétt með haft en ein alvarleg rangfærsla hafi komið fram; að Dagur hafi keypt þrjú bílastæði af borginni án útboðs. Þetta segir Bolli að sé rangt og því vilji hann biðja borgarstjóra og aðra aðila málsins afsökunar. Bolli segist hafa beðið um að myndbandið verði tekið út strax.

„Ég hef aldrei verið ósannindamaður og var mér sagt að allt sem þarna er sagt væri eftir áreiðanlegum heimildarmönnum,“ skrifar Bolli meðal annars.

Myndbandið hefur verið töluvert til umræðu í kjölfar skotárásar á bíl Dags. Sjálfur hefur Dagur sagt að í myndbandinu hafi heimili hans verið gert að skotskífu.

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook - -