Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vinsældir streymisveitna margfaldast

31.01.2021 - 16:32
Mynd með færslu
 Mynd: Glenn Carstens-Peters - Unsplash
Stafrænir félagsmiðlar og efnisveitur njóta sívaxandi vinsælda hér á landi sem annars staðar. Áskrift og notkun hefur margfaldast á fáum árum samkvæmt neyslukönnun Gallups.

 

Áskriftir íslenskra heimila að sjónvarpsefnisveitunni Netflix eru nú tvöfalt fleiri en fyrir fjórum árum. Tvö af hverjum þremur heimilum eru nú með áskrift að efnisveitunni. Árið 2016 voru 34%  íslenskra heimila með áskrift að Netflix, áskrifendum fjölgaði um 10 prósentustig á ári en 16 prósentustig milli áranna 2018 og 2019. Fimmtungur fólks notar Netflix daglega og rúmur helmingur notar miðilinn oftar en einu sinni í viku.  

Tónlistarveitan Spotify hefur leyst geisladiskinn af hólmi og tvöfaldað fjölda íslenskra áskrifenda sinna á örfáum árum. Um 28% Íslendinga nota þá veitu daglega og um  helmingur allra notar veituna minnst einu sinni í viku.

80% Íslendinga nota Facebook daglega og 91% nota miðilinn minnst einu sinni í viku. Miðillinn er mest notaður af konum á aldrinum 25-44 ára. Fjöldi þeirra sem nota Instagram hefur ríflega þrefaldast á síðustu árum en rúmur þriðjungur skoðar Instagram daglega. Tæpur fjórðungur fólks hér á landi notar YouTube daglega og tæp 60% nota þann miðil minnst einu sinni í viku.

Fjórðungur Íslendinga notar útvarpsefnisveituna Podcast einu sinni í viku eða oftar og 9% nota þá veitu daglega. Fjöldi þeirra sem notar Potcast til að hlusta á afþreyingarefni hefur margfaldast á fáum árum og merkja má greinilegt stökk milli áranna 2018 og 2019.

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV