Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Tvær breytingartillögur við auðlindaákvæðið

31.01.2021 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fjórir af fimm stjórnarandstöðuflokkum standa að frumvörpum um breytingar á auðlindaákvæðinu í stjórnarskrárfrumvarpi forsætisráðherra. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að næstu kosningar snúist um auðlindamálin ef Alþingi samþykkir auðlindaákvæði forsætisráðherra. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að virða verði þjóðarvilja.

„Okkur fannst rétt að leggja fram þessa breytingartillögu strax í upphafi til þess að hún geti líka verið grundvöllur umræðu í þinglegri meðferð þegar málið fer inn í þingsal og í nefnd,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann er fyrsti flutningsmaður breytingartillögu sem Píratar, Samfylkingin og Flokkur fólksins auk Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns utan flokka, standa að við frumvarp forsætisráðherra. Þau vilja að auðlindaákvæðið sem forsætisráðherra leggur til víki fyrir ákvæði sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis lagði til fyrir kosningar 2013 og byggði á starfi stjórnlagaráðs. 

„Það var hérna þjóðaratkvæðagreiðsla árið 2012. Hún skiptir máli. Okkur ber að virða þjóðarviljann og það þýðir að grundvalla nýja stjórnarskrá á frumvarpi stjórnlagaráðs,“ segir Helgi. Hann segir að til greina komi að leggja til breytingar við önnur ákvæði frumvarpsins síðar í ferlinu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur lagt fram aðra breytingartillögu. Í frumvarpi forsætisráðherra segir að enginn geti fengið náttúruauðlindir eða landsréttindi til varanlegra afnota en Þorgerður Katrín vill að í staðinn verði sagt til ótímabundinna afnota. Jafnframt vill hún að kveðið verði á um að eðlilegt endurgjald komi fyrir tímabundnar heimildir til nýtingar náttúruauðlinda í ábataskyni.

„Það er til að tryggja virka þjóðareign. Það ákvæði sem formaður Vinstri grænna hefur lagt fram undirstrikar óbreytt ástand. Það er ekki verið að tryggja hlut þjóðarinnar í þjóðareigninni sjálfri. Þannig að þetta er algjör lykilbreyting og ef það verður ekki tekið tillit til hennar þá er alveg ljóst út á hvað næstu kosningar munu ganga,“ segir Þorgerður Katrín.